Erlent

Þrítug íslensk kona handtekin: 13 kíló af heróíni og milljón pund gerð upptæk

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Lögreglan í Liverpool lagði halda á milljón pund í reiðufé eða jafnvirði 208 milljóna íslenskra króna.
Lögreglan í Liverpool lagði halda á milljón pund í reiðufé eða jafnvirði 208 milljóna íslenskra króna. Mynd af vef Liverpool Echo
Þrítug íslensk kona var handtekin í heimahúsi í Liverpool ásamt þremur karlmönnum þann 7. júlí síðastliðinn í aðgerðum lögreglunnar þar í borg. Við þrjár húsleitir lögreglu fundust rúmlega 13 kíló af heróíni sem lögregla telur að hafi verið ætlað til sölu. Sömuleiðis var á vettvangi ein milljón punda í reiðufé sem svarar til 208 milljóna íslenskra króna.

DV greindi fyrst frá málinu í kvöld og vísar í umfjöllun Liverpool Echo og upplýsinga á vef lögreglunnar á Merseyside. Konan er nafngreind í miðlum ytra sem og á vefsíðu lögreglunnar en hún mun heita Kolbrún Ómarsdóttir. Mennirnir þrír sem voru einnig handteknir eru á aldrinum 23-36 ára. Þeir heita Benjamin Marsden, Darren Marsden og John Joseph Courtney.

Úr upplýsingum á vef lögreglunnar í Liverpool má lesa að Darren og Benjamin Marsden hafi auk Kolbrúnar verið búsett á Liddell Avenue í Melling, litlu þorpi í útjaðri Liverpool.

Paul Newhall var leitað af lögreglu í júlí. Enn er auglýst eftir honum á vef lögreglunnar í Liverpool.
Leita fimmta aðila

Fyrrnefnd fjögur komu fyrir dóm daginn eftir handtökuna og voru ákærð fyrir vörslu fíkniefnanna í þeim tilgangi að selja þau og einnig fyrir ætlaðan peningaþvott.

Við sama tilefni auglýsti lögreglan í Liverpool eftir Paul Newhall, 38 ára karlmanni, sem sagður var hafa mikilvægar upplýsingar í tengslum við málið. Ekki liggur fyrir hvort leit lögreglu að Newhall hafi borið árangur.

Rannsóknarlögreglumaðurinn Tony O’Brien sagði við fjölmiðla í júlí:

„Þetta er umtalsvert magn fjár og fíkniefna sem við höfum lagt hald á, sem ekki er lengur í umferð og ratar þar af leiðandi ekki í vasa glæpamanna og valda skaða í samfélagi okkar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×