Erlent

Sumarbúðir í Útey hafnar: „Við erum komin heim“

Atli ísleifsson skrifar
Rúmlega þúsund þátttakendur eru skráðir til leik í sumarbúðunum og hafa aldrei verið fleiri.
Rúmlega þúsund þátttakendur eru skráðir til leik í sumarbúðunum og hafa aldrei verið fleiri. Vísir/AFP
Sumarbúðir ungliðahreyfingar norska Verkamannaflokksins hófust í Útey í morgun. Þetta er í fyrsta sinn sem búðirnar eru haldnar frá hryðjuverkaárásinni í eynni og í Ósló þann 22. júlí 2011.

Það var þungskýjað þegar Mani Hussani, formaður ungliðahreyfingarinnar, ávarpaði rúmlega þúsund þátttakendur í morgun, en aldrei hafa fleiri verið skráðir í búðirnar. „Við erum komin heim,“ sagði Hussaini.

69 manns voru drepnir í árásinni í Útey fyrir fjórum árum síðan og eru margir sem sækja búðirnar nú sem gerðu það einnig á deginum örlagaríka 2011.

69 stöplar

Dagskrá búðanna eru á margan hátt svipuð fyrri ára þar sem knattspyrnu- og blakleikir ólíkra héraðssambanda hófust til að mynda í morgun.

Í byggingunni þar sem fjölmargir voru skotnir til bana geta þátttakendur nú fræst um árásina þar sem 69 stöplar tákna öll fórnarlömb árásarinnar.

Einnig er búið að koma upp sérstökum minnisvarða og þremur nýjum byggingum þar sem ólík málþing fara fram.

Gro Harlem Brundtland mætir

Þegar Hussaini ávarpaði gesti varði hann ekki miklum tíma í að ræða um árásina 2011 heldur lagði mesta áherslu á pólitíska merkingu sumarbúðanna. Besti hann á að fjölmargar hugmyndir sem upp hafa komið á málþingum í eyjunni hafi síðar orðið að lögum á norska þinginu.

Fyrrum forsætisráðherrann Gro Harlem Brundtland mun einnig sækja búðirnar heim en hún var stödd í Útey einungis nokkrum klukkustundum áður en árásarmaðurinn lét til skarar skríða 2011. Að sögn árásarmannsins hugðist hann meðal annars ráða Brundtland af dögum.

Mani Hussaini.Vísir/AFP
Vísir/AFP
Vísir/AFP
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO og fyrrverandi forsætisráðherra Noregs.Vísir/AFP
Vísir/AFP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×