Erlent

Getnaðarvarnarpillan getur dregið úr líkum á krabbameini

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Getnaðarpillan getur bjargað lífum.
Getnaðarpillan getur bjargað lífum. vísir/getty
Ný rannsókn sýnir fram á að getnaðarvarnarpillan kemur ekki aðeins í veg fyrir getnað heldur eru líkur á því að hún geti einnig minnkað líkurnar á því að krabbamein myndist í móðurlífi kvenna.

Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í The Lancet Oncology, hliðartímariti The Lancet sem er helgað er greinum um krabbamein. Rannsakendur skoðuðu gögn frá yfir 27.000 konum sem fengið höfðu krabbamein í legið og tæplega 116.000 sem höfðu ekki fengið meinið. Samkvæmt rannsakendunum má leiða að því líkum að undanfarna hálfa öld hafi pillan komið í veg fyrir um 400.000 tilfelli krabbameins af þessari tegund. Þeir segja að fyrir hver fimm ár á pillunni minnki líkurnar af því að fá meinið um allt að fjórðung.

„Verndaráhrif pillunnar halda áfram að virka eftir að inntöku hennar er hætt. Það þýðir að konur sem nota pilluna meðan þær eru á þrítugsaldri njóta góðs af því er þær eldast og líkurnar á krabbameini aukast,“ segir Valerie Beral við Oxford háskólann en hún er einn höfunda greinarinnar.

Samkvæmt upplýsingum frá Krabbameinsfélaginu, frá árunum 2008-2012, greinast að meðaltali 27 konur með krabbamein í legbol á ári. Meðalaldur við greiningu er 64 ár. Að meðaltali létust sex konur á ári úr meininu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×