Erlent

Nýr Súez-skurður opnaður í dag

Atli Ísleifsson skrifar
Skurðurinn er 171 kílómetrar að lengd og tengir saman Rauðahaf og Miðjarðarhaf.
Skurðurinn er 171 kílómetrar að lengd og tengir saman Rauðahaf og Miðjarðarhaf. Vísir/AFP
Umferð og afkastageta Súez-skurðarins tvöfaldaðist eftir að nýr skurður, sem liggur samhliða þeim gamla, var opnaður í dag.

Skurðurinn er 171 kílómetrar að lengd og tengir saman Rauðahaf og Miðjarðarhaf. Skurðurinn hefur til þessa getað flutt 47 skip á sólarhring og hefur getan nú aukist í 97 skip á sólarhring, eða um 35.400 skip á ári.

Í frétt E24 segir að um átta prósent af skipum heims fari um skurðinn og með nýja skurðinum mun biðtíminn minnka um átta klukkustundir.

Mikilvæg siglingaleið

Siglingaleiðin milli Evrópu og Asíu er ein sú mikilvægasta í heimi og með því að sigla um Súez-skurðinn í Egyptalandi sleppa skip við að sigla umhverfis Afríku.

Vinna við gerð skurðarins hófst fyrir einungis tólf mánuðum síðan. Abdel el-Sisi, forseti Egyptalands, kallaði verkefnið „gjöf Egyptalands til heimsins“ þegar hann kynnti fyrirhugaðar framkvæmdir í allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.

1.200 milljarðar

Áætlaður kostnaður við gerð skurðarins er 1.200 milljaðar króna og vilja egypsk yfirvöld meina að nýi skurðurinn komi til með að skapa um milljón ný störf.

43 þúsund verkamenn hafa unnið að verkinu síðustu tólf mánuði þar sem vinna hefur farið fram allan sólarhringinn.

Vinna við gerð Súez-skurðarins hófst árið 1859 og var formlega opnaður í nóvember 1869.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×