Erlent

Hlaut þrettán ára fangelsisdóm vegna morðs í Færeyjum

Atli Ísleifsson skrifar
Þórshöfn í Færeyjum.
Þórshöfn í Færeyjum. Vísir/GVA
Dómstóll í Færeyjum dæmdi í dag 24 ára karlmann, Guðmund Trúgvason, í þrettán ára fangelsi vegna morðs á Hjálmari Holm, 36 ára manni, í bænum Hvalba á Suðurey á síðasta ári.

Í frétt Kringvarpsins segir að Guðmundur hafi banað Hjálmari með því að hafa stungið hann tólf sinnum, meðal annars í háls. Hjálmar var sofandi þegar Guðmundur réðst á hann. Guðmundur var af sérfræðingum metinn sakhæfur en hann játaði verknaðinn fyrir dómi.

Guðmundur sagði fyrir rétti að hann vissi ekki hvers vegna hann hafi drepið Hjálmar. Þeir hafi ekki þekkst og hafi Guðmundur fyrir tilviljun komið að fórnarlambinu sofandi inni á baðherbergi í húsinu. Hafi hann vakið Hjálmar og spurt hann um sígarettur, en Hjálmar hafi neitað honum um slíkt.

Guðmundur hafi þá farið inn í eldhús í leit að sígarettum, fundið hníf, farið aftur inn á baðherbergið og ítrekað stungið Hjálmar. Að því loknu hafi hann þvegið sér um hendur, þvegið hnífinn og lagt hann á eldhúsborðið áður en hann yfirgaf húsið.

Morð eru ekki tíð í Færeyjum, en þetta var tíunda morðið sem framið er í eyjunum síðustu 48 árin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×