Innlent

Ákærð fyrir að innheimta lífeyrisgreiðslur konu sem lést árið 2000

Birgir Olgeirsson skrifar
Tryggingastofnun ríkisins gerir þá kröfu að konan verði dæmd til að endurgreiða 12,7 milljónir króna.
Tryggingastofnun ríkisins gerir þá kröfu að konan verði dæmd til að endurgreiða 12,7 milljónir króna. VÍSIR/PJETUR
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur höfðað mál á hendur tæplega sextugri konu sem er sökuð um að hafa á tíu ára tímabili svikið rúmlega fjórtán milljónir króna úr Tryggingastofnun ríkisins með því að innheimta lífeyrisgreiðslur sem voru ætlaðar konu sem lést árið 2000.

Í ákæru lögreglustjórans kemur fram að sextuga konan blekkti Tryggingastofnun ríkisins til að greiða 14,2 milljónir króna í ellilífeyri, tekjutryggingu, uppbót lífeyris vegna umönnunarkostnaðar og tengdar lífeyrisgreiðslur með því að skila skattaframtali til skattyfirvalda vegna tekjuáranna 2000 til 2009 fyrir konuna sem lést árið 2000 og greina stofnuninni ekki frá andláti hennar.

Var með prókúru á reikninginn

Lífeyrisgreiðslurnar, sem námu 12,7 milljónum króna á nefndu tímabili, voru lagðar inn á bankareikning látnu konunnar í Landsbanka Íslands en ákærða, sem var með prókúru á reikninginn, tók fjármunina út með reglubundnum hætti og nýtti í eigin þágu.

Telst þessi háttsemi varða 248. grein almennra hegningarlaga en þar segir: „Ef maður kemur öðrum manni til að hafast eitthvað að eða láta eitthvað ógert með því á ólögmætan hátt að vekja, styrkja eða hagnýta sér ranga eða óljósa hugmynd hans um einhver atvik, og hefur þannig fé af honum eða öðrum, þá varðar það fangelsi allt að 6 árum.“

Þingfest í næstu viku

Fer lögreglustjórinn fram á að konan verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Tryggingastofnun ríkisins hefur krafist þess að ákærða verði dæmd til að endurgreiða stofnuninni 12,7 milljónir króna.

Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur næstkomandi þriðjudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×