Erlent

Þýska þingið samþykkir neyðarlán til Grikklands

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Angela Merkel virtist vera kát eftir niðurstöðu atkvæðagreiðslu þingsins.
Angela Merkel virtist vera kát eftir niðurstöðu atkvæðagreiðslu þingsins. Vísir/AFP
Þýska þingið samþykkti fyrir stundu að veita gríska ríkinu þriðja neyðarlánið. Þessi nýjasti björgunarpakki hljóðar upp á um 86 milljarða evra sem gríska ríkið á að fá til næstu þriggja ára.

Það var rúmur meirihluti þingmanna sem samþykkti neyðarnálið. Af 631 þingmönnum á þinginu sögðu 454 já, 113 sögðu nei og 18 sátu hjá. Áður en kosið var um málið var talið að um 40-60 þingmenn stjórnarmeirihluti Angelu Merkel myndu segja nei en hluti þeirra stjórnarþingmanna sem voru á móti veitingu neyðarlánsins mættu ekki til atkvæðagreiðslunnar en alls voru 46 þingmenn fjarstaddir.

Það var Wolfgang Schaeuble, fjármálaráðherra, sem mælti fyrir því að samþykkja veitingu neyðarláns og fyrir atkvæðagreiðsluna sagði hann að mikilvægt væri að styðja við nýtt upphaf Grikkja.

„Það er engin trygging fyrir því að þetta muni allt saman virka og það má alltaf efast. Ef við tökum það hinsvegar með í reikninginn að gríska þingið hefur samþykkt nær allar þær aðgerðir sem fylgja eigi neyðarláninu væri það óábyrgt af okkur að grípa ekki þetta tækifæri á nýju upphafi í Grikklandi.“

Í gær samþykktu þing Austurríkis, Eistlands og Spánar að veita Grikkjum neyðarlán í þriðja skipti. Hollenska þingið kemur jafnframt saman í dag til að kjósa.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×