Erlent

Leðurblökumaðurinn lést í bílslysi

Leðurblökubíllinn.
Leðurblökubíllinn. Vísir/Getty
Maður sem klæddi sig upp í Batman-búning og heimsótti veik börn á sjúkrahúsum lést í gær í bílslysi í Bandaríkjunum. Hafði hann stigið út úr sérhönnuðum Batman-bíl sínum á hraðbraut vegna bilunar og lést samstundis þegar hann varð fyrir aðvífandi bifreið.

Lenny B. Robinsson, 51 árs, heimsótti sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir til þess að gleðja börn sem þar dvöldu. Einnig hafði hann eytt tugþúsundum dollara í litabækur og aðrar gjafir handa veikum börnum. Lenny öðlaðist heimsfrægð þegar hann var stöðvaður af lögreglunni árið 2012 fyrir að keyra Batman-bíl sinn, Lamborghini, án númeraplötu. Lögreglumönnunum brá heldur betur í brún þegar Leðurblökumaðurinn sjálfur steig út úr bílnum.

Robinsson byrjaði á því að heimsækja spítala eftir að hann seldi fyrirtæki sitt árið 2007, eftir það helgaði hann líf sitt góðgerðarmálum.

„Þetta er gefandi á svo ótrúlegan hátt, bara að fá börn til þess að brosa. Þó ég hefði aðeins glatt eitt barn, veit ég að ég hef gert eitthvað sem skiptir raunverulega máli,“ sagði Lenny þegar blaðamenn ræddu við hann árið 2012 í kjölfar þess að myndband af því þegar lögreglan í Maryland stöðvaði Robinson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×