Erlent

Flugmaður dæmdur fyrir ölvun

Heimir Már Pétursson skrifar
Lettneskur aðstoðarflugmaður Air Baltic flugfélagsins hefur verið dæmdur í sex mánaða fangelsi í Noregi eftir að honum og öðrum áhafnarmeðlimum var meinað að fljúga frá Osló til Krítar á dögunum. Tveir flugliðar voru einnig dæmdir í 45 og 60 daga fangelsi.

Áhöfn flugvélarinnar var látin blása í áfengismæli eftir ábendingu um að flugmennirnir og flugliðar væru undir áhrifum áfengis. Hinn 38 ára gamli aðstoðarflugmaður viðurkenndi fyrir dómi að hann og áhöfnin hafi drukkið bæði viský og bjór ótæpilega allt að fjórum klukkustundum fyrir brottför.

Áfengismagn í blóði aðstoðarflugmannsins var um sjö sinnum meira en leyfilegt er. Hann segir áhöfnina hafa misst stjórn á drykkju sinni.

Þau hófu drykkjuna klukkan þrjú síðdegis hinn 7 ágúst og ætluðu að hætta að drekka klukkan átta um kvöldið en flugvélin átti að fara klukkan sex morguninn eftir. Aðstoðarflugmaðurinn var enn að drekka bjór um klukkan tvö um morguninn.

Upphaflega var hann dæmdur í átta mánaða fangelsi en þar sem hann gekkst greiðlega við brotum sínum var fangelsisdómurinn lækkaður í sex mánuði. Flugstjórinn neitar enn sök og á eftir að koma fyrir dóm en öll áhöfnin hefur verið rekin úr starfi hjá Air Baltic.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×