Erlent

Fjórburarnir og 65 ára mamman í góðum gír

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Annegret Raunigk, hér 55 ára árið 2005, með nýfætt barn sitt sem nú er orðið tíu ára.
Annegret Raunigk, hér 55 ára árið 2005, með nýfætt barn sitt sem nú er orðið tíu ára. Vísir/EPA
Læknar í Þýskalandi segja að fjórburunum, sem fæddust þremur mánuðum fyrir tímann í maí, heilsist vel. Sömuleiðis er líðan 65 ára gamallar móðurinnar góð og fá þau að halda heim af sjúkahúsinu fljótlega. AP greinir frá.

Börnin fjögur vógu öll um tíu merkur (2,5 kg). Um er að ræða stúlkuna Neeta og drengina Dries, Bence og Fjonn. Komu þau í heiminn þann 19. maí með keisaraskurði.

Talið er að móðirin, Annegret Raunigk, sé elsta konan sem fætt hefur fjórbura. Kennslukonan fyrrverandi á fyrir þrettán börn á aldrinum tíu til 44 ára en feðurnir eru fimm. Hún gekkst undir tæknisæðingarmeðferð í Úkraínu en þess konar aðgerðir eru bannaðar í Þýskalandi.

Þegar Raunigk ræddi við fjölmiðla á meðgöngunni sagði hún að allir ættu að fá að lifa því lífi sem þeir sjálfir kjósa. Sagðist hún gera ráð fyrir að hún yrði áfram hraust og gæti vel séð um og séð fyrir börnunum. Hún sagðist ekki skipta sér af skoðunum annarra.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×