Erlent

Rúmlega tíu látnir í átökum í Úkraínu

Atli Ísleifsson skrifar
2,3 milljónir manna hafa neyðst til að yfirgefa heimili sín vegna átakanna.
2,3 milljónir manna hafa neyðst til að yfirgefa heimili sín vegna átakanna. Vísir/AFP
Tíu manns hafa látið lífið í átökum úkraínskra hersveita og aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu í dag og í nótt. Sameinuðu þjóðirnar áætla að tala látinna frá því að átök hófust í apríl á síðasta ári nálgist nú sjö þúsund.

Fréttir hafa borist af því að tveir óbreyttir borgarar, karl og kona, hafi farist í bænum Sartana, skammt fyrir utan hafnarborgina Mariupol sem úkraínski stjórnarherinn ræður yfir. Talsmaður úkraínskra heilbrigðisyfirvalda staðfestir jafnframt að annar maður hafi látið lífið í smábæ undir stjórn Úkraínuhers, skammt frá Donetsk, helsta vígi aðskilnaðarsinnar.

Í frétt SVT kemur fram að fjórir til viðbótar hafi látist í árásum í Donetsk í nótt. Þá hafa nokkrir úkraínskir hermenn fallið.

Síðustu daga hafa hörðustu átök milli deiluaðila átt sér stað frá því að samið var um vopnahlé.

Frá miðjum aprílmánuði 2014 til loka júlí í ár hafa 6.832 óbreyttir borgarar og hermenn látið lífið í austurhluta Úkraínu. Þar að auki hafa 17.087 særst og 2,3 milljónir manna neyðst til að yfirgefa heimili sín. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×