Erlent

Farþegavélin í Indónesíu talin hafa brotlent

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Trigana Air er ekki þekkt fyrir tryggt flugöryggi.
Trigana Air er ekki þekkt fyrir tryggt flugöryggi. Vísir/EPA
Farþegavél með 54 farþegum innanborðs brotlenti í Oktabe héraði í Papúa í dag. Vélin datt úr sambandi við flugstöð snemma í morgun og óvissa ríkti um afdrif hennar í nokkrar klukkustundir í dag.

Vélin var að fljúga frá Jayapura Sentani flugvellinum og Oksibil, höfuðborg Papúa. Hún á að hafa flogið á Tangok fjall og óvitað er hvort nokkur hafi lifað áreksturinn af. Vélin missti samband við flugstöð níu mínútum áður en hún átti að lenda.

Flugfélagið Trigana Air Service á vélina. Yfirvöld vinna nú að því að sannreyna vitnisburð sjónarvotta og senda teymi af stað til þess að leita vélarinnar.

„Það eru nokkrir sjónarvottar sem segjast hafa séð vél brotlenda í dalnum áður en komið er að flugvellinum,“ segir í frétt The Guardian um málið.

Þar kemur fram að svæðið sem vélin flaug yfir sé erfitt yfirferðar; fjöllótt og afskekkt og þurfi því vélar að fljúga utan í fjallshlíðum.

Síðan flugfélagið var stofnað árið 1991 hafa fjórtán flugvélar á þess vegum lent í slysum. Það hefur verið á bannlista hjá Evrópusambandinu síðan árið 2007. Flugfélög eru á þessum bannlista sökum þess að öryggi farþega sem nýta þjónustu þess telst ekki tryggt eða að reglugerðir í heimalandi þess eru ekki í samræmi við alþjóðastaðla.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×