Erlent

Segja aðstæður í flóttamannabúðum til skammar

Samúel Karl Ólason skrifar
Búðirnar eru sagðar vera óþrifalegar og illa skipulagðar.
Búðirnar eru sagðar vera óþrifalegar og illa skipulagðar. Vísir/AFP
Mannréttindasamtökin Amnesty International segja að Traiskirchen flóttamannabúðirnar í Austurríki séu til skammar og aðstæður þar séu ómannúðlegar. Um er að ræða stærstu flóttamannabúðir Austurríkis og segja samtökin að um 1.500 manns sofi þar undir berum himni.

Búðirnar eru sagðar vera óþrifalegar og illa skipulagðar en innanríkisráðuneyti Austurríkis segist vera að vinna að því að bæta aðstæður í búðunum. Samkvæmt BBC segir ráðuneytið eiga í vandræðum vegna fjölgunar hælisleitenda í Austurríki.

Heinz Pazelt hjá Amnesty í Austurríki segir búðirnar vera til skammar fyrir ríkt land eins og Austurríki. Hann segir að hundruð barna haldi til í búðunum og þau séu án eftirlits og að iðulega séu þau síðust til að fá að borða. Í rauninni væri verið að brjóta á mannréttindum þeirra.

Samkvæmt tölum frá ESB tók Austurríki á móti rúmlega 28 þúsund hælisleitendum í fyrra. Á fyrstu þremur mánuðum þessa árs sóttu rúmlega tíu þúsund manns um hæli í landinu. Flestir hælisleitendanna eru frá Sýrlandi, Kósovó og Afganistan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×