Erlent

Abe lýsir yfir „djúpstæðri sorg“ vegna síðari heimsstyrjaldarinnar

Atli Ísleifsson skrifar
Shinzo Abe sagði að afsökunarbeiðnir fyrri ríkisstjórna Japans væru "óbifandi“.
Shinzo Abe sagði að afsökunarbeiðnir fyrri ríkisstjórna Japans væru "óbifandi“. Vísir/EPA
Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, hefur lýst yfir „djúpstæðri sorg“ vegna aðkomu og gjörða landsins í síðari heimsstyrjöldinni.

Abe sendi í morgun frá sér yfirlýsingu í tilefni af því að sjötíu ár eru liðin frá uppgjöf Japana.

Sagði Abe að afsökunarbeiðnir fyrri ríkisstjórna Japans vera „óbifandi“. Forsætisráðherrann hét því einnig að Japan myndi „aldrei aftur heyja stríð“.

Beðið með eftirvæntingu

Yfirlýsingarinnar hafði verið beðið með nokkurri eftirvæntingu en í frétt BBC segir að stjórnvöld í nágrannaríkjum Japans, svo sem Suður-Kóreu og Kína, hafi haft áhyggjur af því að Abe myndi draga úr ódæðisverkum Japana í stríðinu.

Kínverjar og Suður-Kóreumenn biðu mikið tjón af hernámi Japana og vilja margir meina að Japanir hafi aldrei bætt almennilega fyrir gjörðir sínar.

Tímamótaafsökunarbeiðnin 1995

Kínversk og suður-kóresk stjórnvöld vildu að Abe stæði við tímamótaafsökunarbeiðni Tomiichi Murayama forsætisráðherra frá árinu 1995 þar sem hann baðst innilegrar afsökunar á þætti Japana og lýsti djúpri eftirsjá vegna „nýlendustefnu og yfirgangi Japana í stríðinu“.

Junichiro Koizumi, þáverandi forsætisráðherra, ítrekaði orð Murayama tíu árum síðar, eða 2005.


Tengdar fréttir

Árásarinnar á Nagasaki minnst

70 ár eru liðin frá því að kjarnorkusprengju var varpað á japönsku borgina Nagasaki. Slík vopn hafa ekki verið notuð í hernaði síðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×