Erlent

11 ára stúlka ól stúlkubarn

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá mótmælum við þinghúsið í Paragvæ.
Frá mótmælum við þinghúsið í Paragvæ. Vísir/EPA
Ellefu ára gömul stúlka eignaði stúlkubarn í Paragvæ í dag. Barnið var tekið með keisaraskurði og bæði móður og dóttir heilsast vel. Lögmaður móður og ömmu barnsins segir að þær vilji fá forsjá yfir stúlkunni.

Móðurinni var nauðgað af stjúpföður sínum þegar hún var tíu ára. Sá hefur verið handtekinn en ekki hefur verið réttað yfir honum.

Málið hefur vakið mikla athygli á kynferðisbrotum gegn börnum í þessu fátæka landi og mannréttindasamtök hafa mótmælt ákvörðuninni um að stúlkan fengi ekki að fara í fóstureyðingu.

Farið var fram á fóstureyðingu þegar í ljós kom að stúlkan var ólétt. Yfirvöld í Paragvæ neituðu beiðninni hins vegar. Samkvæmt AP fréttaveitunni hrósuðu trúarsamtök yfirvöldum fyrir ákvörðunina en mannréttindasamtök og Sameinuðu þjóðirnar gagnrýndu yfirvöld.

Fóstureyðingar eru alfarið ólöglegar í Paragvæ, nema óléttan ógni lífi móðurinnar. Þegar beiðnin var lögð fram fyrir stúlkuna var hún komin fimm mánuði á leið. Heilbrigðisstarfsmenn sögðu stúlkuna þá vera við góða heilsu.

Amnesty International sagði í tilkynningu í dag að sú staðreynd að stúlkan hafi lifað barnsburðinn af, fyrirgefi ekki mannréttindabrot yfirvalda gagnvart henni.

AP segir að á hverju ári verði um 600 stúlkur, 14 ára og yngri, óléttar í Paragvæ. Í heildina búa um 6,8 milljónir manna í landinu. Þrátt fyrir að haldin hafi verið mótmæli í Paragvæ gegn því að stúlkunni hafi verið meinað um fóstureyðingu, voru fleiri mótmæli sem beindust gegn kynferðisbrotum gegn börnum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×