Erlent

Blair segir Verkamannaflokkinn geta þurrkast út undir forystu Corbyn

Atli Ísleifsson skrifar
Tony Blair leiddi breska Verkamannaflokkinn frá 1994 til 2007.
Tony Blair leiddi breska Verkamannaflokkinn frá 1994 til 2007. Vísir/AFP
Tony Blair, fyrrum forsætisráðherra Bretlands, segir að Verkamannaflokkurinn gæti staðið frammi fyrir því að þurrkast út, verði þingmaðurinn Jememy Corbyn gerður að leiðtoga flokksins.

Blair, sem leiddi flokkinn á árunum 1994 til 2007, segir að flokksmenn væru að „ganga fram að bjargbrúninni með lokuð augun og hendurnar út“ verði Corbyn kjörinn formaður.

Corbyn hefur áður lýst sjálfum sér sem „sósíalista“ og þykir lengst til vinstri á meðal þeirra fjögurra sem bjóða sig fram til formanns. Kosning meðal flokksmanna hefst á morgun og verður nýr formaður kynntur laugardaginn 12. september.

„Ef Corbyn verður leiðtogi verða þetta ekki ósigrar eins og 1983 og 2015 í næstu kosningum. Ósigurinn verður alger og mun flokkurinn mögulega þurrkast út,“ segir Blair, sem hefur áður sagt að flokkurinn muni ekki sigra með því að stilla sig upp lengra til vinstri.

Auk Corbyn eru þingmennirnir Andy Burnham, Yvette Cooper og Liz Kendall í framboði. Corbyn hefur mælst með nokkuð örugga forystu í þeim skoðanakönnunum sem hafa verið gerðar.

Ed Miliband sagði af sér formennsku í kjölfar ósigurs Verkamannaflokksins í þingkosningunum í maí síðastliðinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×