Fótbolti

Enginn unnið fleiri Evróputitla en Dani Alves

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brasilíumaðurinn Dani Alves vann Ofurbikarinn í fjórða sinn í gær.
Brasilíumaðurinn Dani Alves vann Ofurbikarinn í fjórða sinn í gær. Vísir/EPA
Barcelona vann í gær dramatískan 5-4 sigur á spænska liðinu Sevilla í ofurbikar UEFA þegar sigurvegararnir í Evrópukeppnunum tveimur mættust í árlegum leik sem að þessu sinni fór fram í Tbilisi í Georgíu.

Brasilíumaðurinn Dani Alves var í liði Barcelona í gær og komst með sigrinum í úrvalshóp með Ítalanum Paolo Maldini og Hollendingnum Arie Haan. Enginn leikmaður hefur nú unnið fleiri Evróputitla með félagsliði en þessir þrír.

Allir hafa þeir Dani Alves, Paolo Maldini og Arie Haan unnið níu Evróputitla á sínum ferli og ólíkt hinum þá ætti Dani Alves að eiga möguleika á ná þeim tíunda.

Dani Alves hefur unnið Meistaradeildina þrisvar sinnum á ferlinum, UEFA-bikarinn tvisvar sinnum og þetta var í fjórða sinn sem hann vinnur Ofurbikar Knattspyrnusambands Evrópu.

Dani Alves vann þrjá fyrstu Evróputitla sína með Sevilla en hann lék með liðinu til ársins 2008. Frá árinu 2008 hefur Barcelona síðan unnið sex Evróputitla á átta tímabilum.

Paolo Maldini vann Evrópukeppni meistaraliða (eða Meistaradeildina) fimm sinnum með AC Milan og Ofurbikarinn fjórum sinnum. Arie Haan vann Evrópukeppni meistaraliða þrisvar sinnum með Ajax, Evrópukeppni bikarhafa tvisvar með Anderlecht og Ofurbikarinn fjórum sinnum.

Dani Alves er 32 ára gamall og það leit út fyrir að hann væri á förum frá Barcelona snemma sumar þegar samningur hans var að renna út. Dani Alves skrifaði síðan undir nýjan tveggja ára samning við Katalóníufélagið í júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×