Erlent

Neyðarástandi lýst yfir í Ferguson

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Ungur maður sést hér særður eftir kúlur lögreglunnar.
Ungur maður sést hér særður eftir kúlur lögreglunnar. vísir/ap
Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í bandaríska bænum Ferguson í Missouri. Yfirlýsing þess efnis kom í kjölfar þess að maður um tvítugt var særður af lögreglu en maðurinn hafði verið þátttakandi í göngu til að minnast þess að ár er liðið frá því að lögreglumenn skutu Michael Brown, átján ára þeldökkan mann, til bana. Brown var óvopnaður er hann var myrtur.

„Í ljósi ofbeldisins sem átti sér stað í gær og þeirra átaka sem líklegt er að spretti upp í kjölfar þeirra atburða hef ég ákveðið að lýsa yfir neyðarástandi þegar í stað,“ segir í yfirlýsingu frá Steve Stenger lögreglustjóra í St. Louis.

Í það minnsta þrír særðust og fjórir voru handteknir er nokkrir mótmælenda hófu að skjóta úr byssum í átt að lögreglu. Einn þeirra, hinn átján ára Tyrone Harris Jr.,  reyndi að flýja af vettvangi en var skotinn margsinnis af fjórum lögreglumönnum sem veittu honum eftirför.

Harris Jr. gekkst undir aðgerð og liggur nú milli heims og helju á sjúkrahúsi. Búið er að ákæra hann fyrir árás gegn lögreglunni. Lögreglumennirnir fjórir hafa allir verið sendir í leyfi.



Forðast að sagan endurtaki sig

Ástandið í Ferguson hefur verið afar óstöðugt síðan Brown var skotinn fyrir ári síðan. Lögreglumaðurinn sem skaut hann var hvítur og hæfðu tólf byssukúlur hans Brown. Í framburði sínum fyrir dómi hélt hann því fram að verknaðurinn hefði verið sjálfsvörn.

Um þremur mánuðum eftir atvikið, eða í nóvember í fyrra, komst kviðdómur síðan að þeirri niðurstöðu að lögreglumaðurinn skyldi ekki sóttur til saka fyrir framgöngu sína. Fólk þusti út á götur Ferguson og bæja víða í kring. Á tímabili voru 2.000 þjóðvarðliðar í viðbragðsstöðu vegna ástandsins. Óeirðirnar stóðu í tæpa viku áður en yfirvöldum tókst að koma ró á fólk á nýjan leik.

Óttast er að atburðir gærdagsins séu olía á þær glæður sem enn lifir í frá í fyrra og ljóst að yfirvöld ætla að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir að atburðir síðasta árs endurtaki sig. 


Tengdar fréttir

Mótmæli breiðast út til annarra borga

Darren Wilson, lögreglumaðurinn sem skaut Michael Brown til bana í ágúst sagðist í samtali við sjónvarpsstöðina ABC vera með „hreina samvisku“.

Lögreglumenn særðir skotsárum í Ferguson

Tveir lögreglumenn voru í morgun skotnir fyrir utan lögreglustöðina í Ferguson í Missouri í Bandaríkjunum en mikill órói hefur verið í bænum frá því í sumar þegar unglingurinn Michael Thomas, sem var blökkumaður, var skotinn til bana af hvítum lögreglumanni.

Ferguson ólgar enn

Lögreglumennirnir tveir, sem skotið var á í Ferguson í gærmorgun, særðust illa en munu ná sér. Lögreglustjórinn í St. Louis segir talið að setið hafi verið fyrir þeim. Daginn áður sagði lögreglustjórinn í Ferguson af sér vegna alvarlegrar gagnrýni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×