Erlent

Nefnd um nýjan þjóðfána Nýja-Sjálands skilar af sér

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Þessir fjórir eru í sérstöku uppáhaldi hjá blaðamönnum Vísis.
Þessir fjórir eru í sérstöku uppáhaldi hjá blaðamönnum Vísis.
Nefnd um nýjan þjóðfána Nýja-Sjálands hefur valið fjörutíu fána sem koma til greina sem nýr fáni landsins. Tæplega 10.300 tillögur bárust frá íbúum landsins um fána sem gæti komið í stað þess gamla.

Núverandi fáni landsins samanstendur af fána Bretlands, Union Jack, sem liggur á bláum grunni og hylur fjórðung hans. Að auki eru þar fjórar rauðar stjörnur. Fánanum þykir svipa mjög til ástralska fánans en þar eru stjörnurnar sex og hvítar að lit. Mörgum þykir einnig ekki við hæfi að hafa breska fánann á sínum eigin enda sé hann minnisvarði um nýlendutímann og kúgun sem því fylgdi.

Margar af tillögunum eru afar sniðugar þó þær myndu tæpast vera við hæfi sem þjóðfáni lands. Þeir eftirminnilegustu innihalda mynd af kíví fugli að skjóta leysigeisla úr augum sér, manni á hjóli, QR-kóða og nýsjálenska útgáfu af Pepe the Frog.

Skemmtilegt albúm með myndum af fánum sem hlutu ekki náð dómnefndarinnar má finna neðst í fréttinni en gaman er að segja frá því að einn fáninn er keimlíkur þeim íslenska. 

Kosningin um nýjan fána verður tvíþætt. Fyrst verður fólk beðið um að raða fánunum fjörutíu, sem hlutskarpastir urðu, í röð eftir því hverjum þeirra því finnst bestur. Í mars á næsta ári verður svo kosið milli þess fána sem vinsælastur var og núverandi fána.

Fánana fjörutíu sem valdir voru má sjá með því að smella hér og allar innsendar tillögur má skoða hérna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×