Viðskipti innlent

Samherji hagnaðist um ellefu milljarða í fyrra

Samúel Karl Ólason skrifar
Arðgreiðsla til hluthafa verður 1,4 milljarðar króna eða 12,4 prósent hagnaðar.
Arðgreiðsla til hluthafa verður 1,4 milljarðar króna eða 12,4 prósent hagnaðar. Vísir/Pjetur
Afkoma Samherja hf. og dótturfélaga er sögð hafa verið góð á síðasta ári. Hagnaður félagsins var rúmir ellefu milljarðar króna. Þá voru tekjur rúmlega 78 milljarðar. Félagið greiðir 2,6 milljarða króna í tekjuskatt og 900 milljónir í veiðileyfagjald. Arðgreiðsla til hluthafa verður 1,4 milljarðar króna eða 12,4 prósent hagnaðar.

Í tilkynningu frá félaginu segir að tæpur helmingur af starfsemi samstæðunnar sé erlendis. Félagið seldi afurðir til 60 landa í fyrra og þar af 23 landa í Afríku.

Rekstrartekjur Samherja og dótturfélaga þess voru rúmir 78 milljarðar í fyrra og nam hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði 16,4 milljörðum. Árið áður var sá hagnaður 25,4 milljarðar, en þá var söluhagnaður 8,1 milljarður.

„Afkoma af reglulegri starfsemi í fyrra var því mjög svipuð og árið á undan.  Hagnaður fyrir tekjuskatt nam 13,7 milljörðum og að teknu tilliti til tekjuskatts var hagnaður ársins 11,2 milljarðar króna.“

Eignir samstæðunnar í lok árs 2014 voru 116,2 milljarðar króna. Heildarskuldir og skuldbindingar voru 40,8 milljarðar og eigið fé 75,3 milljarðar.

Gjörbreytt landslag á mörkuðum

„Innflutningsbann er til Nígeríu og gjaldeyrisskortur en þangað höfum við flutt mikið af uppsjávarafurðum og allar okkar þurrkuðu afurðir. Ekki sér fyrir endann á innflutningsbanni Rússa á íslenskar afurðir, þangað sem við fluttum afurðir fyrir vel á fimmta milljarð á síðasta ári. Við trúum því að þau mál muni leysast og höldum áfram að rækta okkar tryggu viðskiptasambönd þar í landi sem hafa byggst upp á löngum tíma og gagnkvæmu trausti. Þriðji stóri markaður okkar fyrir uppsjávarafurðir hefur verið í Úkraínu. Þar eru aðstæður mjög erfiðar og mikill samdráttur hefur verið í innflutningi. Það eru því ærin verkefni framundan að leita leiða til að hámarka verðmæti uppsjávarafla okkar á næstu misserum.

Verkefnin eru til að leysa og það er af nógu að taka en við erum vel í stakk búin að takast á við síbreytilegar aðstæður.  Við höfum mikið af hæfu starfsfólki sem hefur tekist á við fjölmargt með okkur. Við munum þétta raðirnar til að klára þessar fjárfestingar og mæta áskorunum sem framundan eru,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, í tilkynningunni.

Í tilkynningu Samherja kemur fram að Samherji hf. sé eignarhaldsfélag um eignarhluti í dóttur- og hlutdeildarfélögum sem flest tengist sjávarútvegi og vinnslu afurða hérlendis og erlendis.

„Rekstur útgerðar og fiskvinnslu á Íslandi er í félögunum Samherji Ísland ehf. og Útgerðarfélag Akureyringa ehf. og rekstur fiskeldis er í Íslandsbleikju ehf. Félög samstæðunnar starfa í ellefu löndum og gera upp í níu mismunandi gjaldmiðlum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×