Innlent

Ekkert bólar á niðurstöðum í dularfulla kattamálinu í Hveragerði

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Lögregla hefur þrjá kattadauða til rannsóknar.
Lögregla hefur þrjá kattadauða til rannsóknar. Vísir/Getty
Lögreglan á Suðurlandi hefur enn til rannsóknar dularfulla kattadauða í Hveragerði en eigendur katta sem fundist hafa dauðir grunar að þeim hafi verið komið fyrir kattarnef með eitruðum fiskflökum.

Lögregla sendi kattahræ sem grafin voru upp til rannsóknar hjá Rannsóknarstöðinni að Keldum en þar er skoðað hvort eiturefni finnist í dýrunum. Þá var bláleitt fiskflak sent til rannsóknar hjá Rannsóknarstofu háskólans en talið var að því hefði verið velt upp úr frostlegi í því skyni að drepa kettina.

Sjá einnig: Lögregla rannsakar dularfullu kattadauðana í Hveragerði

Engar niðurstöður eru komnar enn sem varpa ljósi á málið. Lögreglan á Suðurlandi segir það þar að auki ólíklegt að hægt verði að finna nokkurn sökudólg komi í ljós að um saknæma háttsemi hafi verið að ræða.

Þorgrímur Óli Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á Suðurlandi, segir að lögreglu hafi aðeins borist tilkynningar um þrjá ketti sem grunur leikur á um að hafi verið byrlað eitur. Hins vegar hafa á tug dauðra katta verið nefndir í umræðum um málið og í fjölmiðlum. Þorgrímur segir að gott hefði verið að hafa fleiri hræ til rannsóknar.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 fyrr í mánuðinum kom fram að samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun, sem hefur málin til rannsóknar, er talið að kettirnir hafi dáið vegna eitrunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×