Erlent

Eistneskur lögreglumaður dæmdur til þrælkunarvinnu í Rússlandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Eston Kohver og Toomas Hendrik forseti Eistlands.
Eston Kohver og Toomas Hendrik forseti Eistlands. Vísir/AFP
Eistinn Eston Kohver hefur verið dæmdur til fimmtán ára þrælkunarvinnu í Rússlandi. Hann var handtekinn af Rússum í september í fyrra og segja þeir hann vera njósnara. Eistar halda því hins vegar fram að hann hafi verið að rannsaka smygl við landamærin og að honum hafi verið rænt og fluttur yfir landamærin til Rússlands með vopnavaldi.

Taavi Roivas, forsætisráðherra Eistlands, hefur fordæmt dóminn og segir hann vera brot gegn alþjóðalögum. Evrópusambandið hefur tekið í sama streng og fer fram á að Kohver verði sleppt úr haldi. Sjálfur neitar Kohver sök.

Dómurinn var úrskurðaður í gær, en Kohver var einnig sakfelldur fyrir að smygla vopnum inn í Rússland og að fara ólöglega inn í landið. Rússar segja að hann hafi verið með byssu, upptökubúnað og peninga.

Samkvæmt Sky News segja Eistar að Kohver hafi verið við landamærin að vinna að rannsókn vegna smygls yfir landamærin. Hann hafi verið réttu megin við landamærin þegar honum var rænt af vopnuðum mönnum. Undanfarin ár hefur smygl á vopnum, vörum og fólki aukist töluvert um landamærin.


Tengdar fréttir

Krefjast þess að Kohver verði sleppt úr haldi Rússa

Evrópusambandið krefst þess að eistneskum lögreglumanni sem Rússar handtóku í síðustu viku fyrir njósnir verði sleppt úr haldi. Maðurinn hefur verið ákærður og gæti hann átt yfir höfði sér allt að tuttugu ára fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×