Innlent

Ljósmæður telja sig eiga inni laun hjá ríkinu fyrir vinnu í verkfalli

Jóhann Óli Eiðsson og Stefán Ó. Jónsson skrifa
Ljósmæður standa enn í stappi við ríkið.
Ljósmæður standa enn í stappi við ríkið. vísir/valli
Ljósmóðirin Guðrún Gunnlaugsdóttir segir farir sínar ekki sléttar við stjórnendur á Landspítalanum en hún, rétt eins og fleiri ljósmæður, telur að spítalinn hafi haft sér laun sem hlaupa á hundruðum þúsunda vegna verkfalls stéttarinnar í upphafi sumars.

Þrátt fyrir að hafa skilað nær fullri vinnuskyldu voru henni einungis greiddur um helmingur launa sinna á þriggja mánaða tímabili, frá 1. apríl til 1. júní.

Vinnustöðvun, sem hefði átt að kosta hana rúmlega 60 þúsund krónur, var þannig  til þess að launaseðilinn hennar varð 267.736 krónum rýrari. Það er mismunur upp á rúmlega 200 þúsund krónur. 

Guðrún Gunnlaugsdóttir
Ljósmæður sitja allar í sömu súpunni

„Við ljósmæður töldum í fyrstu að væntanlega væri um mistök að ræða og þetta yrði leiðrétt fljótt því við eigum allar tímafærslur, samkvæmt stimpilklukku, sem sýna þegar við höfum mætt til vinnu. Ríkið hefur haldið eftir þessum launum nú í rúma 2 mánuði og er þolinmæði mín á þrotum,“ segir Guðrún.  

Hún skrifaði þremur stjórnendum á spítalanum, þeim Páli Matthíassyni forstjóra, Magnúsi Birgissyni yfirmanni launadeildar og Jóni Hilmari Friðrikssyni framkvæmdastjóra kvenna- og barnadeildar, bréf í síðustu viku þar sem hún fór fram á að þessi mismunur yrði leiðréttur og henni greidd laun inn á bankareikning sinn.

Hún vissi að aðrar ljósmæður „sætu í sömu súpu og hún,“ eins og Guðrún kemst að orði í samtali við Vísi og biðu margar hverjar óþreyjufullar eftir útskýringum frá toppum Landspítalans. Svörin sem bárust síðastliðin föstudag voru ekki frá einhverjum stjórnendanna þriggja, heldur frá lögfræðingi Landspítalans.

Sjá einnig: Ljósmæður segja launing kynjamisrétti

Í svarbréfi spítalans segir að „samkvæmt athugun launadeildar Landspítala verði ekki annað séð en að útreikningi launa þér til handa í verkfallinu hafi verið háttað með sambærilegum hætti og gert var gagnvart öðrum sem voru í verkfalli á sama tíma.” Guðrún segir þetta orðalag bera með sér að spítalann sé í raun að viðurkenna að fjöldi ljósmæðra eigi þar af leiðandi ennþá inni laun hjá stofnuninni – það hafi bara í rauninni verið brotið á þeim jafnt.

„Mistökin okkar fyrsta maí voru líklega að við hefðum ekkert átt að mæta til vinnu eftir að við fengum launaseðlana okkar í hendurnar, þegar það var búið að draga af okkur helming launanna.“

Sjá einnig: Raskanir verða á sónarskoðunum og mæðravernd vegna verkfalls ljósmæðra

Mál ljósmæðranna verður tekið fyrir af Félagsdómi þann 9. september næstkomandi en hann hefur áður vísað frá máli félagsins vegna ófullnægjandi gagna. Guðrún segist þó viss um, eftir að hafa lesið síðustu niðurstöðu dómsins „aftur á bak og áfram“ að hann muni lítið aðhafast í málinu.  „Í niðurstöðunum stendur í rauninni að þarna sé um ágreining að ræða um meint vangoldin laun og heyri því ekki undir Félagsdóm heldur almenna dómstóla,“ segir Guðrún. „Það er því algjörlega tilgangslaust að bíða eftir Félagsdómi,“ bætir hún við.

Hún gerir ráð fyrir því að senda mál sitt til innheimtulögfræðings, „og mun því upphæðin sem ég tel að spítalinn skuldi mér reiknast með vöxtum.“

Fjármálaráðuneytið tjáir sig ekki um málið

Þann 3. júní síðastliðinn var birt á vef Landspítalans tilkynning frá Páli Matthíassyni forstjóra spítalans. Þar kemur fram að hann hafi sent bréf til velferðar- og fjármálaráðuneytanna þar sem hann gerði athugasemdir við þessa háttan mála.

„Það er að sjálfsögðu skoðun Landspítala að starfsmenn fái greitt fyrir þá vinnu sem þeir inna af hendi, hvort sem það er í verkfallstíma eða ekki,“ skrifar Páll og bætir við að velferðarráðuneytið hafi tekið undir þá afstöðu. 

Það er hins vegar ekki Landspítalinn sem greiðir launin út heldur Fjársýsla ríkisins. Samkvæmt svörum upplýsingum fréttastofu hefur ákveðin leiðrétting þegar átt sér stað og ljósmæður fengið greiddan hluta tíma sinna. Sú greiðsla gerir hins vegar ráð fyrir fimm daga vinnuviku en ekki sjö daga vaktavinnu. Deilan sem fer fyrir Félagsdóm á næstunni snýst um þann mismun sem helgast af þessu. 

Þann 5. maí síðastliðinn lagði Jón Þór Ólafsson fram fyrirspurn á þingi þar sem hann spurði meðal annars hví ákveðið hefði verið að takmarka launagreiðslur ljósmæðra, hve miklar launaskerðingarnar væru og hvenær ljósmæður gætu sótt laun sín til ríkisféhirðis. 



Hafa ber í huga að Ljósmæðrafélag Íslands ákvað að efna til verkfalls og nýta sér þannig heimild félagsmanna til að leggja niður vinnu þegar kjarasamningur er laus, í því skyni að knýja á um gerð nýs kjarasamnings. Af þeim sökum á við sú meginregla að laun fást ekki greidd fyrir þann tíma sem starfsmaður er í verkfalli, þar sem starfsmaður innir ekki af hendi vinnuskyldu sína. Því er ekki um launakröfu á hendur íslenska ríkinu að ræða að verkfalli loknu. Af því leiðir að ekki er um að ræða að ríkið beri neina vexti eða bæti neitt launatap vegna verkfallsins þar sem ákvörðun um boðun verkfalls var tekin af félagsmönnum Ljósmæðrafélags Íslands,“ segir í svari fjármálaráðuneytisins.

Er fréttastofa falaðist eftir því að vita hvar málið væri statt í ráðuneytinu núna fengust þau svör að fjármálaráðuneytið myndi ekki tjá sig um málið meðan rekstur þess fyrir félagsdómi stendur yfir.

Mig langar að deila nokkru með ykkur hér á facebook, nokkru sem legið hefur þungt á mér að undanförnu. Það sem um ræðir...

Posted by Guðrún Gunnlaugsdóttir on Sunday, 30 August 2015

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×