Fótbolti

Georgía vann óvæntan sigur á Skotlandi

Scott Brown, fyrirliði skoska liðsins.
Scott Brown, fyrirliði skoska liðsins. Vísir/Getty
Heimamenn í Georgíu unnu góðan sigur á Skotlandi í dag í Tblisi, höfuðborg Georgíu. Sigurmark Georgíu kom stuttu fyrir lok fyrri hálfleiks en skoska liðinu gekk illa að skapa sér færi í leiknum.

Áttu flestir von á því að þetta yrði nokkuð auðvelt fyrir skoska liðið sem sat í 3. sæti riðilsins með 11 stig eftir sex leiki á meðan Georgía sat í því 5. með þrjú stig. Kom eini sigur Georgíu gegn Gíbraltar.

Valeri Kazaishvili kom Georgíu yfir á 38. mínútu og var ekki hægt að segja annað en að markið væri verðskuldað. Skotarnir sköpuðu sér engin færi í hálfleiknum og þótt að Georgíumenn væru ekki vaðandi í færum náðu þeir að nýta eitt af þeim færum sem þeir fengu.

Það var lítið í spilunum hjá skoska liðinu allt fram að uppbótartíma í seinni hálfleik þegar þeir settu meiri pressu á georgíska liðið. Þrátt fyrir aukna pressu tókst Skotunum ekki að skapa sér færi og náðu fyrir vikið ekki að jafna metin í seinni hálfleik.

Lauk leiknum með 1-0 sigri heimamanna en gera má ráð fyrir að Norður-Írland skjótist upp fyrir Skotana í kvöld en Norður-Írarnir mæta Gíbraltar í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×