Innlent

Lögmaður um innkaupabann borgarinnar: „Jafnmikið lögbrot og að neita viðskiptum við rauðhærða“

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Einar Gautur Steingrímsson, hæstaréttarlögmaður, segir innkaupabannið í andstöðu við stjórnarskrána.
Einar Gautur Steingrímsson, hæstaréttarlögmaður, segir innkaupabannið í andstöðu við stjórnarskrána. vísir
Reykjavíkurborg mun sniðganga varning frá Ísrael eftir að síðasta tillaga Bjarkar Vilhelmsdóttur í borgarstjórn þess efnis var samþykkt í gær. Tillagan snýr að því að hætta viðskiptum með ísraelskar vörur þar til hernámi ríkisins á landi Palestínumanna verði hætt.

Einar Gautur Steingrímsson hæstaréttarlögmaður segir ákvörðunina ekki vera í samræmi við lagabókstafinn.

„Sveitarfélög eru stjórnvöld og þau mega bara framkvæma það sem þeim er falið með lögum. Degi B. Eggertssyni og Reykjavíkurborg hefur ekki verið falið utanríkismál eða það að ákveða viðskiptaþvinganir gegn erlendum ríkjum. Þannig að þeir eru komnir langt út fyrir hlutverk sitt sem sveitarfélag. Auk þess gæti ekki einu sinni ríkisstjórn tekið svona ákvörðun, það þyrfti heimild frá Alþingi.“

Einar segir borgina ekki geta skýlt sér á bak við aðgerðir ísraelskra stjórnvalda eða ástandið í Mið-Austurlöndum; Reykjavíkuborg hafi hreinlega ekki heimild til að mismuna fólki í viðskiptum.

„Þetta er í andstöðu við stjórnarskrána. Þetta er jafnmikið lögbrot eins og að neita viðskiptum við rauðhærða og það þýðir ekkert að skírskota til meints framferðis Ísraela. Ísland er með stjórnmálasamband við þetta ríki og það þýðir ekkert fyrir borgina að halda að þeir séu með einu réttu skoðunina á flóknum málefnum Austurlanda og það réttlæti svona ákvörðun. Þetta er öldungis sambærilegt við það að mismuna fólki eftir þyngd eða litarhætti.“


Tengdar fréttir

Reykjavíkurborg mun sniðganga varning frá Ísrael

Eitt aðalmál borgarstjórnarfundar Reykjavíkur í gær var síðasta tillaga Bjarkar Vilhelmsdóttur í borgarstjórn um að Reykjavík sniðgangi vörur frá Ísrael á meðan hernám Ísraela á landi Palestínumanna varir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×