Erlent

30 flóttabörn flutt í SOS Barnaþorp

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ung sýrlensk stúlka á flótta.
Ung sýrlensk stúlka á flótta. Mynd/SOS barnaþorp
Yfir 30 flóttabörn sem komu til Austurríkis án foreldra hafa nú eignast nýtt heimili í SOS Barnaþorpum þar í landi. Til stendur að gefa 70 foreldralausum flóttabörnum til viðbótar ný heimili í barnaþorpum þar á næstu þremur mánuðum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá SOS Barnaþorpum.

Um er að ræða börn á aldrinum 7-13 ára frá Sýrlandi, Afganistan og Íran og komu þau öll ein síns liðs til Austurríkis. Öll fá þau áfallahjálp og sálfræðiaðstoð enda búin að upplifa ansi margt á stuttri ævi.

„Þetta snýst um ekki um að gefa þessum börnum þak yfir höfuðið. Hér fá þau tækifæri á eðlilegri barnæsku. Þau eignast fjölskyldu og mæta í skóla,“ segir Clemens Klingan, fulltrúi SOS Barnaþorpanna í Austurríki.

Þá hafa SOS Barnaþorpin einnig gefið ungu fólki á flótta, þ.e. ungmennum á aldrinum 17-21 ára, heimili á SOS ungmennaheimilum í Austurríki. Fleiri ungmennaheimili verða sett á laggirnar á næstu mánuðum þar sem ungir flóttamenn eignast nýtt heimili.


Tengdar fréttir

Tugir drukknuðu á flótta sínum í gær

Yfir þrjátíu manns fórust, þar á meðal að minnsta kosti eitt barn, þegar trébáti með um 130 flóttamenn hvolfdi við gríska eyjaklasann Farmakonisi í gærmorgun. Daily Mail hafði um kvöldmatarleytið í gær eftir grísku strandgæslunni að 34 lík hefðu fundist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×