Erlent

Rússar koma skriðdrekum fyrir í Sýrlandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Skotið úr T-90 skriðdreka á æfingu í Rússlandi.
Skotið úr T-90 skriðdreka á æfingu í Rússlandi. Vísir/EPA
Rússland hefur komið fyrir minnst sjö T-90 skriðdrekum í Sýrlandi. Hermönnum hefur fjölgað undanfarið þar í landi og virðast þeir vera að undirbúa flugvöll nærri Latakia í Sýrlandi fyrir notkun. Embættismenn í Bandaríkjunum segja þó að ekki liggi fyrir hvað Rússar ætli sér að gera í Sýrlandi.

Samkvæmt Reuters fréttaveitunni hefur þrýstingur á að Rússar útskýra ætlanir sínar í Sýrlandi aukist síðustu daga. Rússar hafa stutt við bakið á Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, í borgarastyrjöldinni sem hefur geisað þar í rúm fjögur ár.

Hingað til er ekki búið að lenda orrustuþotum eða þyrlum á flugvellinum, en heimildarmaður Reuters segir að svo virðist sem að Rússar séu að lagfæra flugbrautina þar.

Einnig er búið að koma fyrir stórskotaliði við flugvöllinn. Reuters hefur áður sagt frá því að um 200 rússneskir hermenn haldi til á flugvellinum. Þar að auki er verið að koma fyrir radar og loftvörnum. Rússar segjast ætla að veita Sýrlandi hernaðarbirgðir og segja aðstoð sína til sýrlenska hersins vera í samræmi við alþjóðalög.

Samkvæmt RT hafa yfirvöld í Kænugarði ekki leyft rússneskum flugvélum á leið til Sýrlands að fljúga um lofthelgi Úkraínu. Þingmaður í Rússlandi sagði að með því væru stjórnvöld Úkraínu að styðja við bakið á Íslamska ríkinu. Í síðustu viku bönnuðu stjórnvöld í Búlgaríu rússneskum flugvélum að fljúga um lofthelgi landsins. Þá hafði TASS fréttaveitan eftir rússneskum embættismanni að Íran hefði veitt Rússum leyfi til að fljúga þar yfir.

Nauðsynlegt að Rússar komi að lausn

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sagði um helgina að nauðsynlegt væri að Rússar kæmu að hugsanlegri lausn á ástandinu í Sýrlandi. Frank-Walter Steinmeier og Sergey Lavrov, utanríkisráðherrar Þýskalands og Rússlands, ræddu um Sýrland á fundi um helgina. Báðir sögðust ætla að styðja tillögu sendiherra Sýrlands hjá Sameinuðu þjóðunum um að stofna alþjóðlegan starfshóp um Sýrland.

Hópurinn myndi vinna að því að finna lausn á hinum ýmsu vandamálum sem hrjá Sýrland og að fá stríðandi fylkingar þar til að setjast við samningaborð og ræða saman.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×