Erlent

Þýski herinn til taks vegna aukins straums flóttamanna

Atli Ísleifsson skrifar
Búist er við að Þýskaland taki á móti um 800 þúsund hælisleitendum á þessu ári.
Búist er við að Þýskaland taki á móti um 800 þúsund hælisleitendum á þessu ári. Vísir/AFP
Um fjögur þúsund þýskir hermenn verða til taks um helgina vegna aukins straums flóttamanna inn í landið. Ursula von der Leyen, varnarmálaráðherra Þýskalands, greinir frá þessu í samtali við Spiegel og segir að enn fleiri verði kallaðir til, gerist þess þörf.

Í frétt SVT kemur fram að flestir Þjóðverjar séu ekki uggandi vegna flóttamannastraum síðustu vikna. Þetta er niðurstaða nýrrar skoðanakönnunar sem unnin var fyrir sjónvarpsstöðina ARD.

61 prósent aðspurðra segjast ekki hafa áhyggjur af flóttamannastraumnum, en um 38 prósent segjast áhyggjufullir vegna þróunarinnar.

Búist er við að Þýskaland taki á móti um 800 þúsund hælisleitendum á þessu ári.

Um 80 prósent aðspurðra segja að flóttamannastraumurinn hafi ekki haft áhrif á daglegt líf þeirra. Einungis tvö prósent segja strauminn hafa haft mikil áhrif.

Meirihluti Þjóðverja segjast hins vegar óánægðir með hvernig Angela Merkel Þýskalandskanslari hafi tekið á flóttamannavandanum.

Sambærileg skoðanakönnun sem framkvæmd var í Frakklandi sýnir að meirihluti fólks styður nú að tekið sé á móti fleiri flóttamönnum frá stríðshrjáðum svæðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×