Innlent

Breyta leiðakerfi Strætó vegna samgöngumiðstöðvar

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Kristín Soffía Jónsdóttir, borgarfulltrúi og formaður stýrihóps
Kristín Soffía Jónsdóttir, borgarfulltrúi og formaður stýrihóps
Stýrihópur Reykjavíkur­borgar um leiðakerfisbreytingar í Reykjavík hefur gefið út drög til umsagnar þar sem lagðar eru fram breytingar á leiðakerfi Strætó vestan­megin við Kringlumýrarbrautina. Breytingar eru vegna fyrirhugaðrar samgöngumiðstöðvar á Umferðarmiðstöðvarreit (BSÍ).

Stýrihópurinn var skipaður til að fylgja eftir áframhaldandi þróun alhliða samgöngumiðstöðvar og í því tilliti endurskoða leiðakerfi almenningssamgangna. Nú er vinnu hópsins lokið og segir Kristín Soffía Jónsdóttir, formaður hópsins, skýrsluna vera í umsagnarferli. „Einu breytingarnar á leiðakerfinu eru vestan megin við Kringlumýrarbrautina vegna fyrirhugaðs flutnings meginskiptistöðvar strætó við Hlemm niður að BSÍ. Með þessu er verið að tengja betur saman strætó, landsbyggðarvagna og flugrútu.“

Við kynningu lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og flugvallarvina fram ítrekaða gagnrýni á staðsetningu samgöngumiðstöðvar án undangenginnar þarfagreiningar og úttektar. Kristín Soffía segir ákveðna sátt ríkja um staðsetninguna og að hún sé hluti af stærra samhengi, aðalskipulagi.

„Staðsetninguna teljum við góða því hún er í nálægð við miðborgina, háskólana og Landspítalann sem er stærsti vinnustaður landsins. Staðsetning austar í borginni myndi fjölga skiptingum í kerfinu og það teljum við óæskilegt,“ segir Kristín Soffía og bætir við að Samgöngumiðstöðin muni réttlæta stífari reglugerð um rútuumferð í miðbænum þar sem fólk muni betur geta komist leiðar sinnar.

Eftir að hópurinn lýkur við að taka við umsögnum verða næstu skref að fara í samkeppni um deiluskipulag reitsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×