Fótbolti

Arnór Ingvi með mark og stoðsendingu í sigri Norrköping

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arnór Ingvi og félagar eru í góðri stöðu til að vinna sænska meistaratitilinn.
Arnór Ingvi og félagar eru í góðri stöðu til að vinna sænska meistaratitilinn. mynd/norrköping
Arnór Ingvi Traustason skoraði eitt marka Norrköping sem komst á topp sænsku úrvalsdeildarinnar með 4-2 sigri á Djurgården í kvöld.

Arnór, sem var valinn efnilegasti leikmaður Pepsi-deildarinnar 2013, lagði einnig upp þriðja mark Norrköping í kvöld en hann er kominn með sex mörk og sjö stoðsendingar á tímabilinu.

Norrköping er með 54 stig á toppi sænsku deildarinnar, jafnmörg og AIK en betri markatölu. IFK Göteborg kemur þar á eftir með 53 stig en liðið á leik til góða gegn Elfsborg á morgun.

Haukur Heiðar Hauksson lék allan leikinn fyrir AIK sem vann Sundsvall á útivelli með tveimur mörkum gegn engu. Þetta var níundi sigur AIK í röð en liðið hefur verið á rosalegri siglingu að undanförnu.

Rúnar Már Sigurjónsson og Jón Guðni Fjóluson léku allan leikinn fyrir Sundsvall sem er í 12. sæti deildarinnar, fjórum stigum frá fallsæti.

Kári Árnason var á sínum stað í vörn Malmö sem vann 4-3 sigur á Falkenbergs í miklum markaleik á Swedbank Stadion.

Malmö er í 4. sæti deildarinnar, sjö stigum frá toppliði Norrköping þegar fimm umferðum er ólokið. Möguleikar Malmö á að verja sænska meistaratitilinn eru því heldur litlir.

Ögmundur Kristinsson heldur áfram að gera það gott hjá Hammarby en hann hélt hreinu þegar Hammarby vann öruggan 3-0 sigur á Gefle á heimavelli. Þetta er í fjórða skiptið sem Ögmundur heldur hreinu í þeim 10 deildarleikjum sem hann hefur leikið með Hammarby.

Birkir Már Sævarsson lék sömuleiðis allan leikinn fyrir Hammarby sem er í 10. sæti deildarinnar, fimm stigum frá fallsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×