Fótbolti

Nasista-kveðja Simunic eftir Íslandsleikinn ekki hans lokakveðja

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Josip Simunic í baráttu við Alfreð Finnbogason í leiknum á móti Íslandi.
Josip Simunic í baráttu við Alfreð Finnbogason í leiknum á móti Íslandi. Vísir/EPA
Josip Simunic hefur verið ráðinn nýr aðstoðarþjálfari króatíska landsliðsins í fótbolta, en hann mun aðstoða Ante Cacic, nýjan þjálfa Króata. Ante Cacic tók við liðinu af Niko Kovac sem var rekinn á dögunum.

Josip Simunic var dæmdur í tíu leikja bann fyrir hegðun sína eftir sigurleik Króatíu á móti Íslandi í nóvember 2013 þegar þjóðirnar mættust í umspili um laust sæti á HM í Brasilíu.

Króatía komst á HM eftir 2-0 sigur á íslenska landsliðinu en fyrri leikur þjóðanna endaði með markalausu jafntefli á Laugardalsvellinum.

Josip Simunic tók hljóðnema vallarþularins í fagnaðarlátunum eftir leikinn og kallaði til stuðningsmanna liðsins:  „Fyrir föðurlandið" og stuðningsmennirnir svöruðu:  „Tilbúnir". Kveðjan var notuð af nasistastjórn í landinu á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar og FIFA tók mjög hart á málinu.

Josip Simunic var dæmdur í það langt bann að hann missti af öllu heimsmeistaramótinu í Brasilíu og mátti ekki spila aftur með Króatíu fyrr en í september á þessu ári. Þegar bann Josip Simunic rann út þá var hann hinsvegar búinn að leggja skóna á hilluna.

Ante Cacic var ráðinn fram yfir HM 2018 en Davor Suker, forseti króatíska sambandsins lét hafa það eftir sér að hann ætlaði að veðja á króatíska heila til að koma landsliðinu upp úr þeim öldudal sem liðið hefur verið í undankeppni EM.

Josip Simunic hefur alltaf haldið sakleysi sínu fram og sagt að hann hafi aðeins verið að styðja sitt föðurland.  „Ég er ekki hræddur, ég gerði ekkert rangt. Ég var að hylla Króatíu, mína þjóð. Ef einhver hefur eitthvað við það að athuga þá er það hans mál," hefur blaðamaður Guardian eftir honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×