Innlent

Enn á ný brotist inn í Tölvuvirkni í Kópavogi

Atli Ísleifsson skrifar
Svona var aðkoman þegar keyrt var inn í verslun Tölvuvirkni í október 2013.
Svona var aðkoman þegar keyrt var inn í verslun Tölvuvirkni í október 2013. Vísir/GVA
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú innbrot í Tölvuvirkni í Holtasmára í Kópavogi, en brotist var inn í verslunina í nótt og þaðan stolið tölvubúnaði.

Tilkynning um málið barst lögreglu skömmu fyrir klukkan fimm í nótt. Í dagbók lögreglu kemur fram að þjófarnir hafi farið inn um aðalinngang eftir að hafa ekið lítilli, hvítri bifreið á útidyrahurð verslunarinnar.

Einnig var ekið inn í verslunina í október fyrir tveimur árum og þaðan stolið vörum. Björgvin Þór Hólm, rekstrarstjóri verslunarinnar, sagði þá í viðtali við Vísi að atvikið væri ekki í fyrsta skipti sem ekið væri inn í verslunina. „Þegar við vorum í Hlíðarsmáranum var líka keyrt inn í búðina. Ég held ég sé örugglega með Íslandsmetið í innkeyrslu í verslanir.“

Þeir sem kunna að búa yfir upplýsingum um málið í morgun eru beðnir um að hafa samband við lögreglu í síma 444 1000. Upplýsingum má einnig koma á framfæri í tölvupósti á netfangið adalsteinna@lrh.is eða í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×