Enski boltinn

Manchester United og Manchester City spila heimaleik á sama kvöldi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Getty
Lögreglan í Manchester-borg mun hafa í nóg að snúast miðvikudagskvöldið 28. okótber næstkomandi þegar bæði Manchester-liðin munu spila heimaleik í sextán liða úrslitum enska deildabikarsins.

Manchester United og Manchester City mætast í ensku úrvalsdeildinni sunnudaginn 25. október og í vikunni á eftir fer fram fjórða umferð enska deildabikarsins.

Bæði Manchester-liðin eiga heimaleik í átta liða úrslitunum og hvorugt félagið var skiljanlega tilbúið að spila á þriðjudagskvöldinu eða aðeins 48 tímum eftir derby-slaginn á Old Trafford.

Lögreglan í Manchester-borg lét undan og gaf leyfi fyrir að báðir leikirnir fari fram sama kvöld.

Manchester United tekur þá á móti b-deildarliði Middlesbrough en Manchester City fær Crystal Palace í heimsókn í úrvalsdeildarslag.Leikur Manchester City hefst fimmtán mínútum fyrr eða klukkan korter í átta.

Það eru rúmir átta kílómetrar á milli leikvanganna, Old Trafford og Etihad og stuðningsmenn liðanna munu því líklega ekkert umgangast hvora aðra þetta kvöld.

Allt að 130 þúsund áhorfendur gætu samt mætt á þessa tvo leiki en þá þarf að seljast upp á leikina. Ekki þykir þó líklegt að áhuginn á deildabikarleikjunum sé það mikill.

Þetta er óvenjuleg staða en ekki þó í fyrsta sinn sem bæði Manchetser-liðin spila heimaleik á sama kvöld. Það gerðist einnig í september 2009 þegar Manchester City mætti Fulham á sama tíma og Manchester United tók á móti Wolverhampton Wanderers á Old Trafford.

Ári áður, eða í desember 2008, tók Manchester City á móti Paris Saint-Germain í UEFA-bikarnum á Etihad-leikvanginum sama kvöld og Manchester United spilaði heimaleik við Blackburn Rovers í enska deildabikarnum.

Manchester-liðin hafa byrjað liða best í ensku úrvalsdeildinni og sitja eins og er í tveimur efstu sætunum. Manchester United er í efsta sæti með sextán stig en Manchester City er með stigi minna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×