Innlent

Ósátt kona í úthverfi safnar liði og leitar að Tryggva Gunnari Hansen

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Ekki una allir Tryggva vistarinnar í tjaldbúðum sínum.
Ekki una allir Tryggva vistarinnar í tjaldbúðum sínum. vísir/vilhelm
„Ég mun fara þarna um og leita,“ segir kona sem býr í einu úthverfa höfuðborgarsvæðisins og telur ótækt að listamaðurinn Tryggvi Gunnar Hansen hafi hreiðrað um sig til búsetu í skógarrjóðri.

Konan, sem ekki lét nafns getið en hafði samband eftir að Fréttablaðið birti viðtal við Tryggva, telur ekki ólíklegt að hann hafist við í nágrenni við hennar hverfi.

„Hvernig losar hann sig við sinn eigin úrgang? Fer hann bara vítt og breitt inn í skóginn og klárar sig þar?“ spyr ónefnda konan áhyggjufull. „Svo fer hann kannski í búðir í okkar hverfi og er drulluskítugur. Fer hann í sund? Það vantar svör við þessu.“

Tryggvi Gunnar Hansen útskýrir listaverk.Fréttablaðið/Vilhelm
Þá segir konan Tryggva ekki hafa leyfi til að búa í skóglendinu. „Og við eigum ekki að líða þetta. Hann kveikir upp eld og getur kveikt óvart í öllum skóginum,“ segir konan sem boðar aðgerðir. „Nú fara krakkar að leita þetta uppi og fara inn í þessa svínastíu og mér líkar það ekki. Ef hann væri svo langt frá byggð að börn færu ekki að þefa þetta uppi þá kemur mér þetta ekkert við.“

Aðspurð hvað sé að óttast við Tryggva svarar konan: „Finnst þér ekki maðurinn dálítið öðruvísi en allir aðrir? Finnst þér ekki vond upplifun fyrir börn að sjá þetta?“

Þá kveðst konan ætla að leita liðsinnis íbúa hverfisins til að fá yfirvöld til að taka á máli Tryggva. „Svona er ekki nútíminn – 2015. Þessi maður á bara að fá hjálp. Það verður þá bara að búa til svæði fyrir svona fólk sem er þá undir eftirliti og hreinsun. Hann vill ekki að það komi fram hvar hann er en við munum finna hann, það er alveg á hreinu að við munum finna hann.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×