Erlent

Hafnar því að flokkurinn sé klofinn

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Jeremy Corbyn í ræðustól á flokksþingi Verkamannaflokksins í gær.
Jeremy Corbyn í ræðustól á flokksþingi Verkamannaflokksins í gær. VÍSIR/EPA
Jeremy Corbyn boðar mildari stjórnmál þar sem byggt verði á gildismati almennings í Bretlandi.

Þetta sagði hann á flokksþingi breska Verkamannaflokksins í gær í fyrstu ræðu sinni þar eftir að hafa verið kosinn leiðtogi flokksins.

Hann sagði ekkert hæft í því að stefna hans væri að kljúfa flokkinn í tvennt, enda ætli hann sér ekki að móta stefnu flokksins í einrúmi.

„Ég vil opnar samræður. Ég mun hlusta á alla. Ég er sannfærður um að forysta felist í því að hlusta,“ sagði Corbyn.

Hins vegar hafi leiðtogakjörið veitt honum ótvírætt umboð til þess að gera breytingar, bæði innan flokksins og í samfélaginu: „Það var kosið um breytingar á því hvernig við stundum stjórnmál, bæði í Verkamannaflokknum og í landinu.“ Stjórnmálin eigi að verða „mildari, og ná til fleiri“.

Hann uppskar hvað eftir annað mikið lófatak úr salnum, en sjá mátti stöku flokksfélaga sitja með krosslagðar hendur meðan flestir stóðu upp til að klappa.

Tony Blair, fyrrverandi leiðtogi flokksins, hefur sagt að Corbyn muni fara með flokkinn fram af hengiflugi. Aðrir forystumenn hafa lýst efasemdum og gagnrýnt stefnu Corbyns.

Breskir fjölmiðlar tóku eftir því að hann nefndi ekki fjárlagahallann í ræðu sinni. Aðrir bentu á að jakkafötin hans þyki harla lík jakkafötum gamanfígúrunnar Mr. Bean.

Í skoðanakönnun, sem sjónvarpsstöðin Sky birti stuttu eftir að Corbyn­ flutti ræðuna, kemur fram að 53 prósent aðspurðra segjast vel geta séð hann fyrir sér sem forsætisráðherra landsins. Þá sögðust 66 prósent telja að hann muni standa sig vel sem leiðtogi Verkalýðsflokksins.

Þá voru viðbrögð þeirra forystumanna flokksins, sem fjölmiðlar ræddu við að lokinni ræðunni, harla jákvæð.

„Jeremy var algerlega samkvæmur sjálfum sér og þetta var í raun boðskapur vonar um þau mannúðlegu stjórnmál sem hann vill sjá og það samfélag umhyggju sem hann vill byggja upp,“ var til dæmis haft eftir Heidi Alexander, sem er skugga­ráðherra Verkalýðsflokksins í heilbrigðismálum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×