Skoðun

Er Ísland án áætlunar?

Svandís Svavarsdóttir skrifar
Athygli vakti þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra lýsti því yfir án nokkurra fyrirvara á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna að Ísland ætlaði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40% fyrir árið 2030. Þótt lítið hafi farið fyrir frumkvæði af þessu tagi í málaflokknum hjá forsætisráðherranum mátti vona að hér hefðu orðið þáttaskil.

Skömmu síðar var yfirlýsingin hins vegar dregin í land af hálfu bæði aðstoðarmanns ráðherrans og sjálfs umhverfisráðherra. Heldur ráðherrann að orð hans á erlendri grundu fréttist ekki hingað heim? Hefur yfirlýsingin verið dregin til baka á vettvangi Sameinuðu þjóðanna?

Aðstoðarmaðurinn talar um að Ísland muni taka við „sanngjörnu hlutfalli“ af heildarmarkmiðum Evrópusambandsríkjanna um að heildarminnkun losunar verði 40% fyrir árið 2030. Ekki liggur fyrir hvað felast mun í „sanngjörnu hlutfalli“ eða hvernig standa eiga að því. Því er alls ekki ljóst hvort og þá hvernig ríkisstjórnin ætlar sér að beita sér í jafn risastóru og brýnu máli og alþjóðasamningum og aðgerðum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Hvar er ný aðgerðaáætlun? Hver eru markmiðin? Við fáum að vita að orð forsætisráðherra standast ekki skoðun, draga þarf í land það sem fullyrt var svo drýgindalega á fundi í Sameinuðu þjóðunum. Hver er áætlunin?

Í raun kemur ekki á óvart að bakkað sé með orð forsætisráðherra enda skýrt að yfirlýsingin rímar ekki við einbeitta og úrelta atvinnustefnu ríkisstjórnar hans. Ekkert gæti verið jafn fjarri göfugum markmiðum um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og stórkarlaleg og mengandi stóriðjustefna Sigmundar Davíðs og félaga.

En ganga þessi markmið um 40% samdrátt í samvinnu við Evrópusambandið nógu langt ef hugur fylgir máli? Ekki að mati okkar Vinstri grænna. Ísland á að geta orðið kolefnishlutlaust hagkerfi fyrir árið 2050. Að því markmiði og heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun 2015 til ársins 2030 ættum við að vinna. Þau heimsmarkmið ganga út á að eyða fátækt, tryggja mannréttindi og jöfn réttindi jarðarbúa með hliðsjón af hagsmunum náttúrunnar og umhverfisvernd.

Það væri alvöru áætlun.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×