Enski boltinn

Jafnt í borgarslagnum í Liverpool | Sjáðu mörkin

Everton og Liverpool skyldu jöfn 1-1 í nágrannaslag í  ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag en Romelu Lukaku skoraði jöfnunarmark Everton eftir að Danny Ings kom Liverpool yfir í fyrri hálfleik.

Danny Ings kom Liverpool yfir fimm mínútum fyrir lok fyrri hálfleiks þegar hann skallaði hornspyrnu James Milner í netið af stuttu færi og virtist flest benda til þess að Liverpool tæki forskotið inn í hálfleik.

Í uppbótartíma í fyrri hálfleik tókst Romelu Lukaku hinsvegar að jafna metin með föstu skoti af stuttu færi.

Átti Emre Can slaka hreinsun sem rataði beint fyrir fætur Lukaku og belgíski framherjinn nýtti sér það og skoraði framhjá félaga sínum úr belgíska landsliðinu í marki Liverpool.

Liðin fengu ágætis tækifæri í seinni hálfleik en heimamenn í Everton voru nær því að stela sigrinum ef eitthvað er en hvorugu liði tókst að bæta við marki og lauk leiknum því með jafntefli 1-1.

Liverpool situr í 10. sæti eftir leikinn, þremur stigum á eftir Leicester í síðasta sætinu sem gefur þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu.

Everton komst upp fyrir Arsenal um tíma í 6. sætið en Skytturnar eiga leik gegn Manchester United til góða í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×