Erlent

Sagði af sér vegna biðlauna

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Carl Holst fær nú biðlaun sem ráðherra í hálft annað ár, eftir þriggja mánaða setu í embættinu.
Carl Holst fær nú biðlaun sem ráðherra í hálft annað ár, eftir þriggja mánaða setu í embættinu. Fréttablaðið/EPA
Danmörk Peter Christensen tekur við embætti varnarmálaráðherra í ríkisstjórn Lars Løkke Rasmussens, eftir að Carl Holst þurfti að segja af sér eftir aðeins þrjá mánuði í starfinu.

Holst hafði sætt harðri gagnrýni á stuttri embættistíð sinni, meðal annars fyrir að þiggja tvöföld laun eftir að hann tók við ráðherraembættinu. Auk ráðherralaunanna fékk hann nefnilega einnig biðlaun sem fráfarandi formaður héraðsráðs Suður-Danmerkur.

Nú á hann hins vegar rétt á biðlaunum áfram sem fyrrverandi ráðherra, alls í 18 mánuði frá 1. október talið, samtals 1.764.893,34 danskar krónur, að því er fram kemur á fréttavef viðskiptablaðsins Børsen. Þessi fjárhæð jafngildir 34 milljónum íslenskra króna.

Christensen, arftaki Holsts í embættinu, var skattamálaráðherra í fyrri ríkisstjórn Lars Løkke Rasmussens, á árunum 2009-2011. Løkke varð aftur forsætisráðherra í sumar eftir sigur á Helle Thorning-Schmidt í þingkosningum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×