Fótbolti

Árni og Elías á skotskónum | Rosenborg svo gott sem orðið meistari

Árni skoraði sitt fyrsta mark í norsku deildinni í dag.
Árni skoraði sitt fyrsta mark í norsku deildinni í dag. mynd/facebook-síða lilleström
Árni Vilhjálmsson var á skotskónum þegar Lilleström vann 2-0 sigur á Haugesund í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Með sigrinum komst Lilleström upp í 8. sæti deildarinnar.

Árni var í byrjunarliði Lilleström og skoraði seinna mark liðsins á 19. mínútu. Þetta var fyrsta mark hans í norsku deildinni á tímabilinu. Finnur Orri Margeirsson kom inn á sem varamaður í liði Lilleström á 82. mínútu en Rúnar Kristinsson stýrir liðinu.

Félagi Árna í U-21 árs landsliðinu, Elías Már Ómarsson, kom Vålerenga á bragðið í 3-1 sigri á Sarpsborg.

Þetta var fjórða mark Elíasar á tímabilinu en Vålerenga er í 6. sæti deildarinnar.

Hólmar Örn Eyjólfsson lék allan leikinn í miðri vörn Rosenborg sem gerði 1-1 jafntefli við Bodö/Glimt á heimavelli.

Trond Olsen kom Bodö/Glimt yfir á 55. mínútu en Alexander Söderlund, fyrrverandi leikmaður FH, jafnaði metin fyrir Rosenborg 11 mínútum fyrir leikslok. Matthías Vilhjálmsson kom inn á sem varamaður í liði Rosenborg á 74. mínútu.

Rosenborg er komið með níu fingur á titilinn og vantar aðeins eitt stig í síðustu þremur umferðunum til að tryggja sér hann. Hólmar, Matthías og félagar eru með 62 stig, níu stigum meira en Stabæk, sem er í 2. sæti, og miklu betri markatölu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×