Alma segir þær hafa mátt sæta ofsóknum og það kalli á spurningar varðandi það hverjir stóðu á bak við það að lögreglan fór fram gegn borgurum með þeim hætti. Og í því felst ákveðin kaldhæðni, að mati Ölmu því sá sem gekk harðast fram heitir Jóhanna Knudsen.

Íslands óhamingju verður allt að vopni
Augu manna hafa þannig beinst að Jóhönnu og sagnfræðingurinn Stefán Pálsson vekur athygli á mannlýsingu sem finna má í eftirmælum um hana, sem er allrar athygli verð. Þau minningarorð fann Stefán í tímaritinu Melkorku og er hún frá árinu 1950. Þetta er 3. tölublað þess árgangs og er það Aðalbjörg Sigurðardóttir sem skrifar. Greinin hefst á gamalkunnri tilvitnun: Íslands óhamingju verður allt að vopni, þá með skírskotun til þess að nú sé Jóhanna fallin frá.

Barátta fyrir æsku landsins
„En sterkasti þátturinn í skapgerð Jóhönnu var þó efalaust ástríðuþrungin elska hennar á íslandi, íslenzkri þjóð og íslenzkri menningu. Það var þó ekki blind elska, heldur vandlætingasöm, ekkert nema hið bezta var nógu gott íslenzkri þjóð og menningu. Eins og landið sjálft var hið dýrasta djásn fegurðar meðal landa jarðarinnar, eins og hin forna íslenzka menning hafði á sínum tíma skipað þjóðinni sæti við háborð menningarþjóða heims, eins átti hið unga, sjálfstæða ísland að geta lagt fram hina göfugustu ávexti andlegrar menningar og siðfágunar, sem henni virtist nútímamenninguna skorta mjög. Hún trúði því af öllu hjarta, að í gamalli erfðakenningu þjóðarinnar og upplagi hennar öllu byggju möguleikar til þess að þetta mætti takast. Þess vegna tók hún upp baráttuna gegn óhollum erlendum áhrifum, þess vegna barðist hún gegn ofdrykkjunni og afleiðingum hennar, fyrst og fremst fyrir æsku landsins. Þess vegna vildi hún í engu slaka til í réttindabaráttunni fyrir Islands hönd.“
...
Uppfært 15:44
Fyrirsögn hefur verið uppfærð, var Ástþrungin elska ..., sem er fremur kauðsk tvítekning og var henni því breytt, í kjölfar ábendinga. Annmarkar eru á kerfinu, þeir að ef fyrirsögnum er breytt falla allar athugasemdir út sjálfkrafa og eru lesendur beðnir velvirðingar á því. Vísir hvetur lesendur eindregið til að setja fram athugasemdir.