Erlent

Tafir á nýrri geimferðamiðstöð gera Pútín reiðan

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Vísir/AFP
Vladimir Pútín forseti Rússland er ósáttur við hversu illa gengur að klára nýja geimferðamiðstöð Rússlands. Fjárdráttur og spilling undirverktaka er sögð vera ástæða fjögurra mánuða frestunar á því að miðstöðin verði starfhæf.

Pútín gagnrýndi sérstaklega Roscosmos, geimferðastofnun Rússlands. Segir hann að ekki hafi verið vandað til verka við val á verktökum og að sjá megi fjölmarga byggingagalla á geimferðamiðstöðinni. Hefur hann sagt að hann ætlist til þess að miðstöðin verði tilbúin fyrir fyrsta geimskotið sem áætlað er að muni eiga sér stað í apríl á næsta ári.

Þrír undirverktakar við verkið hafa verið ákærðir fyrir fjárdrátt grunaðir um að hafa dregið sér fé að upphæð einni milljón dollara hver en í vor liðu mánuðir áður en verkamenn við framkvæmdirnar fengu greitt. Það var ekki fyrr en Pútín skarst í leikinn að greiðsla barst.

Vostochny-geimferðamiðstöðin er staðsett í austur-Rússlandi nálægt landamærum Rússlands og Kína. Með byggingu geimferðamiðstöðarinnar munu Rússar eignast sína eigin miðstöð fyrir mannaðar geimferðir en nú leigja þeir Baikonur-miðstöðina sem staðsett er í Kazakstan. Hún var byggð á tímum Sovétríkjanna og hefur verið miðstöð geimferða Rússa en þeir hafa hinsvegar leigt hana af yfirvöldum í Kazakstan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×