Innlent

Gjöreyðingarlyfi beitt gegn lúpínu á Dalvík

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
"Innan girðingar var jafn mikil lúpína einsog utan hennar en með því að beita snemmsumars þegar hún er í vexti þá er hægt að halda henni niðri og sauðfé virðist sólgið í nýgræðinginn,“ lýsir Valur Þór Hilmarsson meðfylgjandi mynd.
"Innan girðingar var jafn mikil lúpína einsog utan hennar en með því að beita snemmsumars þegar hún er í vexti þá er hægt að halda henni niðri og sauðfé virðist sólgið í nýgræðinginn,“ lýsir Valur Þór Hilmarsson meðfylgjandi mynd. Mynd/Valur Þór
„Menn eru mjög jákvæðir gagnvart því að fara í þessa eyðingu,“ segir Valur Þór Hilmarsson, umhverfisstjóri Dalvíkurbyggðar, þar sem hefta á útbreiðslu lúpínu, kerfils og njóla með illgresiseyðum í samstarfi við landeigendur.

Í mars í fyrra samþykkti byggða­ráð Dalvíkurbyggðar að fela Vali umhverfisstjóra að gera aðgerðaráætlun um að stemma stigu við útbreiðslu fyrrgreindra plantna.

„Gerðar hafa verið tilraunir með að slá og eitra með gjöreyðingarlyfinu Roundup/Clinic. Reynt hefur verið að slá lúpínu og kerfil til að halda útbreiðslu þeirra í skefjum, sláttur kemur ekki í veg fyrir að plönturnar lifi af en það takmarkar útbreiðslu þeirra. Að fenginni reynslu verður eitrað fyrir lúpínu, eins verður gert við kerfil og njóla,“ segir í áætlun umhverfisstjórans sem samþykkt var á fundi byggðaráðsins síðastliðinn fimmtudag.

Nota á Roundup á lúpínu og kerf­il en efnin Hebamix eða Harmoni á njóla. „Reikna má með að verkefnið taki um fimm ár og eftir það verði sveitarfélagið kortlagt að nýju og gerð aðgerðaráætlun í kjölfarið,“ segir í áætlun Vals.

Verkefnið á að vinna í samvinnu sveitarfélagsins og landeigenda. „Mjög mikilvægt er að allir taki þátt í þessu átaksverkefni, einungis þannig náum við árangri!“ undirstrikar umhverfisstjórinn í áætluninni. „Sveitarfélagið leggur til eitur en ætlast er til þess að landeigendur beri ábyrgð á sínu landi. Landeigendur geti fengið starfsfólk frá sveitarfélaginu til aðstoðar í samráði við umhverfisstjóra.“

Hrinda á verkefninu í framkvæmd á næsta ári með því að kortleggja svæði, halda íbúafund síðla vetrar og fara síðan í aðgerðir. Nánar um framvinduna á næsta ári segir að við Dalvík eigi að vinna á lúpínu í friðlandi, með vegi við Karlsá, við Skáldalæk og í Böggvisfjalli. Þessar aðgerðir hefjist þegar lúpína er í örustum vexti fyrir miðjan júní.

Á Árskógssandi verður eitrað í Brúarhvammsreit, frá þjóðvegi og inni í reitnum. Varðandi njóla verður eitrað frá Hrafnstöðum í norður að bæjarmörkum og norðan við Dalvík meðfram vegi og á túnum. Frá Skáldalæk verður eitrað að þjóðvegi og í friðlandi. Unnið verður á njóla allt í kringum Hauganes og á kerfli meðfram þjóðvegi norðan Dalvíkur að Hóli.

Síðan verður farið yfir sömu svæði á árinu 2017 og nýjum reitum bætt við allt fram til ársins 2020 þegar árangurinn verður metinn og ný aðgerðaráætlun unnin.

Þótt lögð sé áhersla á notkun eiturefna í áætluninni segir Valur að jafnframt verði notast við slátt og sauðfé beitt til að halda lúpínu í skefjum. „Ég hef alls ekki á móti lúpínunni en við viljum halda ákveðinni ásýnd, eins og til dæmis í Böggvisfjalli þar sem er mikill lynggróður og berjaland sem hún er farin að sækja inn á,“ segir umhverfisstjórinn og ítrekar að eiturefnum verði ekki beitt þar sem hætt sé á að þau berist í grunnvatn.

„Við kannski eyðum lúpínunni aldrei en það er aðalmálið að halda henni í skefjum og nota hana þá á réttum stöðum – hún er ekki alslæm,“ segir Valur Þór Hilmarsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×