Erlent

Tyrkir lýsa yfir þjóðarsorg

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Tala látinna er komin í 95.
Tala látinna er komin í 95. vísir/afp
Þriggja daga þjóðarsorg hefur verið lýst yfir í Tyrklandi vegna árásanna tveggja sem áttu sér stað í Ankara, höfuðborg Tyrklands í morgun. Tala látinna hækkar enn, og er hún nú komin í níutíu og fimm. Þá eru á annað hundrað særðir.

Ekki er vitað hverjir bera ábyrgð á árásinni, en bæði Kúrdar og hryðjuverkasamtökin Íslamskt ríki liggja undir grun.

Árásirnar voru gerðar á fjöldafundi sem lýðræðisflokkurinn HPD, sem er hliðhollur Kúrdum, stóð fyrir í höfuðborginni í morgun.  Um eins konar friðarsamkomu var að ræða þar sem ræða átti hvernig hægt væri að binda enda á ofbeldi gegn verkamannaflokki Kúrda, PKK. Skömmu áður en fundurinn hófst sprungu tvær sprengjur.

Ahmet Davutoglu, forsætisráðherra Tyrklands, sagði árásina þá mannskæðustu í nútímasögu Tyrklands og lýsti í kjölfarið yfir þriggja daga þjóðarsorg. Þá sagði hann að líklega hefði verið um sjálfsmorðsárásir að ræða.

Árásirnar hafa verið fordæmdar víða um heim í dag, meðal annars Hvíta húsið og Angela Merkel kanslari Þýskalands.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×