Erlent

Á þriðja hundrað bjargað úr sjónum við Lesbos

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Frá björgunaraðgerðum á Lesbos.
Frá björgunaraðgerðum á Lesbos. Vísir/AFP
Að minnsta kosti þrír flóttamenn drukknuðu undan ströndum grísku eyjunnar Lesbos í kvöld þegar trébátur sökk með á þriðja hundrað farþega innanborðs.

Víðtæk leit stendur nú yfir á svæðinu þar sem bátnum hvolfdi norðan eyjunnar en gríska landhelgisgæslan segir ómögulegt að áætla hversu margra er saknað á þessari stundu. Henni hefur þó tekist að bjarga rúmlega 240 flóttamönnum í sjónum. 

Vitað er til þess að tveir ungir drengir og karlmaður séu meðal þeirra sem fórust.

Eyjan Lesbos, sem staðsett er um tíu kílómetra frá ströndum Tyrklands í norðanverðu Eyjahafi, hefur verið fyrsti áfangastaður mörg þúsund flóttamanna sem hafa leitað sér betra lífs í Evrópu. 

Talið er að rúmlega hálf milljón flóttamanna hafi haft viðkomu á eyjunni það sem af er ári og alla jafna hafast um tuttugu þúsund flóttamenn við í höfuðborg Lesbos, Mytilene. Til samanburðar eru innfæddir um 85 þúsund talsins.

Innanríkisráðherra Grikklands hefur látið hafa eftir sér að Lesbos sé nú þegar „sprungin” og að innviðir eyjarinnar ráði ekki við allan þann fólksfjölda sem flykkist nú þangað. Grísk stjórnvöld gripu meðal annars til þess ráðs að opna aðra höfn á eyjunni sem skip með flóttamenn til meginlandsins gætu nýtt sér til að dreifa álaginu um eyjuna.


Tengdar fréttir

Tugir drukknuðu á flótta sínum í gær

Yfir þrjátíu manns fórust, þar á meðal að minnsta kosti eitt barn, þegar trébáti með um 130 flóttamenn hvolfdi við gríska eyjaklasann Farmakonisi í gærmorgun. Daily Mail hafði um kvöldmatarleytið í gær eftir grísku strandgæslunni að 34 lík hefðu fundist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×