Innlent

Fimm ungar stelpur búa í kommúnu í Gnoðavogi

Andri Ólafsson skrifar
Í Gnoðarvoginum leigir hópur ungs fólks saman 150 fermetra íbúð og býr því í nokkurs konar kommúnu.

Fimm stelpur á aldrinum tuttugu til 24 ára hafa þar heimilisfesti en þegar mest lætur eru íbúarnir sjö, eftir því hvort kærastarnir gista eða ekki. Og sambúðin gengur vel. Það reynir á samvinnu þegar reka á svo stórt heimili og sambýlingarnir eru með skipulagða dagskrá fyrir þrif. Helsta umkvörtunarefnið er allt of mikið af sjampóbrúsum og það hefur líka reynst erfitt að sameina búslóðirnar.

Leigan er þrjúhundruðþúsund á mánuði, sem deilist í fimm hluta eftir herbergisstærð. Þannig spara þau stórfé, enda nánast útilokað að finna stúdíóíbúð fyrir minna en 100 þúsund á mánuði og tveggja herbergja íbúðir leigjast á 160-200 þúsund krónur.

Um fjórðungur fólks á aldrinum 24 til 34 ára er nú á leigumarkaði. Þetta er mikil fjölgun frá því sem var fyrir hrun þegar innan við 10% ungs fólks leigði sér húsnæði. Framboðið hefur hinsvegar ekki aukist í takt við eftirspurnina og samkeppnin er hörð um viðráðanlegar leiguíbúðir.

Horfðu á allt innslagið sem var sýnt í Ísland í dag með því að smella í spilarann hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×