Viðskipti erlent

Sala Huawei-síma eykst hraðast á þessu ári

Sæunn Gísladóttir skrifar
Sérfræðingar spá því að 100 milljón Huawei símar muni seljast á árinu.
Sérfræðingar spá því að 100 milljón Huawei símar muni seljast á árinu. Vísir/EPA
Kínverski snjallsímaframleiðandinn Huawei er á öruggri leið með að verða mest vaxandi snjallsímaframleiðandi þessa árs, að mati greiningaraðila. Huawei er í augnablikinu þriðji stærsti snjallsímaframleiðandi heims á eftir Samsung og Apple. Sala hans hefur hins vegar aukist til muna á þessu ári.

Í gær tilkynnti framleiðandinn að snjallsímasendingar hefðu aukist um 63 prósent milli ára og námu 27,4 milljónum. Sala dýrari tegunda síma jókst einnig sem er jákvætt fyrir fyrirtækið sem vill losna við þá ímynd að selja einungis ódýrari síma. Eftir góða sölu á þriðja ársfjórðungi áætla sérfræðingar að framleiðandinn muni selja 100 milljón snjallsíma á árinu, sem er 33 prósent aukning milli ára. Það er meiri söluaukning heldur en hjá samkeppnisaðilunum Apple, Xiaomi og Lenovo.

Huawei á þó enn langt í land með að ná markaðsyfirráðum en markaðshlutdeild fyrirtækisins nam sjö milljörðum dollara, jafnvirði 900 milljarða íslenskra króna á öðrum ársfjórðungi sem er fimmtungur hlutdeildar Apple og Samsung. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×