Menning

Sinfónían á ferðinni landshorna á milli með laumufarþega

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Ferðin er umfangsmesta verkefni vetrarins,“ segir Arna Kristín.
"Ferðin er umfangsmesta verkefni vetrarins,“ segir Arna Kristín. Vísir/Pjetur
Sinfóníuhljómsveit Íslands heldur tónleika á Ísafirði, Akureyri og Egilsstöðum dagana 26. til 29. október. 

Hljómsveitarstjórinn og tónskáldið Daníel Bjarnason stjórnar meðal annars eigin verki, Blow Bright, og klarínettukonsert Mozarts er meðal efnis á dagskránni í flutningi Arngunnar Árnadóttur. Tónleikunum lýkur á fjórðu sinfóníu Tsjajkovskíjs.

„Ferðin er umfangsmesta verkefni vetrarins en við erum í samstarfi við Flugfélag Íslands og því tekst okkur að fara landshorna á milli á fáum dögum og hitta fólk á Vestur-, Norður- og Austurlandi. Það er dýrmætt,“ segir Arna Kristín Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Sinfóníunnar.

Hún segir tónleikaferðir hafa verið reglulegan þátt í starfsemi sveitarinnar en þeim hafi fækkað eftir hrun þar sem þyngra hafi verið undir fæti.

„Nú er landið að rísa og við að fá byr undir vængi. Það er mikilvægt,“ segir Arna og kveðst hlakka til ferðarinnar.

Í för með hljómsveitinni verður músin knáa Maxímús Músíkús og ævintýrið um hana flutt á skóla- og barnatónleikum á Ísafirði og Egilsstöðum. Valur Freyr Einarsson leikari er sögumaður og höfundurinn, Hallfríður Ólafsdóttir, stjórnar sveitinni.

„Maxi hefur gert þetta áður að lauma sér með okkur, til dæmis til Washington, þar kom hann fram í Kennedy Center,“ segir Arna Kristín glaðlega.

Aðgangur að tónleikunum er ókeypis og allir velkomnir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×