Erlent

Leggur til að stjórnvöld vinni með uppreisnarhópum

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Bashar al-Assad og Vladimir Putin í Moskvu í gær.
Bashar al-Assad og Vladimir Putin í Moskvu í gær. vísir/epa
Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur lagt til að stjórnvöld í Sýrlandi sýni uppreisnarhópum í landinu nú linkind, og fái þá til að vinna með sér í baráttunni gegn hryðjuverkasamtökunum Íslamskt ríki.

Pútín viðraði þessar hugmyndir á fundi sínum með Assad Sýrlandsforseta í gær og greindi frá þeim á blaðamannafundi í kvöld. Hann sagði að Assad hefði tekið vel í hugmyndirnar og að nú yrði unnið að framkvæmd þeirra og útfærslu.

Á fundi þeirra ræddu forsetarnir borgarastyrjöldina sem geisað hefur í Sýrlandi síðustu fjögur ár og þátttöku Rússa í hernaði gegn sveitum herskárra íslamista í Sýrlandi. Leiðtogarnir töluðu einnig um að hernaðaraðgerðir í landinu yrðu að leiða til pólitískrar lausnar á ástandinu í landinu.

Rússar hófu loftárásir í Sýrlandi í lok september, og segir Sýrlandsstjórn að ef ekki hefði verið fyrir hernaðaríhlutun Rússa væri ástandið þar í landi mun verra. Þessi aukna sókn stjórnarhersins hefur þó orðið þess valdandi að þúsundir hafa þurft að flýja heimili sín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×