Enski boltinn

Fimmti sigur Arsenal í röð | Sjáðu mörkin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Giroud fagnar marki sínu.
Giroud fagnar marki sínu. vísir/getty
Arsenal er á miklu skriði þessar vikurnar og í dag vann liðið sinn fimmta sigur í röð í ensku úrvalsdeildinni þegar það sótti Swansea City heim.

Lokatölur 0-3, Arsenal í vil en markatala liðsins í síðustu fimm leikjum er 16-3.

Arsenal er nú með 25 stig í 2. sæti deildarinnar, jafnmörg og Manchester City en lakari markatölu.

Oliver Giroud kom Arsenal yfir á 48. mínútu með sínu fjórða marki í síðustu fimm leikjum fyrir félagið. Þetta var 2000. markið sem Arsenal skorar undir stjórn Arsene Wenger.

Swansea sótti hart að Skyttunum eftir markið og Hector Bellerín kom í veg fyrir að heimamenn jöfnuðu þegar hann bjargaði á línu frá Andre Ayew.

Lorent Koscielny tvöfaldaði forystu Arsenal á 68. mínútu en leikmenn Swansea voru ósáttir við að markið fengi að standa og töldu að Koscielny hefði brotið á markverðinum Lukasz Fabianski.

Það var svo Joel Campbell sem gulltryggði sigur Arsenal eftir sendingu frá Mesut Özil.

Gylfi Þór Sigurðsson lék allan leikinn fyrir Swansea sem vann báða leikina gegn Arsenal á síðasta tímabili.

Giroud kemur Arsenal yfir Koscielny og Campbell klára dæmið



Fleiri fréttir

Sjá meira


×