Erlent

Kallar eftir sveigjanlegra Evrópusambandi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
David Cameron ræddi stöðu Bretlands innan Evrópusambandsins á fundinum.
David Cameron ræddi stöðu Bretlands innan Evrópusambandsins á fundinum. vísir/stefán
Nauðsynlegt er að miklar breytingar verði gerðar á Evrópusambandinu, að mati Davids Cameron, forsætisráðherra Breta. Hann segir slíkar breytingar ekki einungis nauðsynlegar fyrir Bretland heldur líka fyrir aðra í Evrópusambandinu og utan þess.

Þetta kom fram í máli hans á ráðstefnunni Northern Future sem var haldin á Grand hóteli í gær. Þátttakendur í ráðstefnunni voru forsætisráðherrar Norðurlandanna, Bretlands og Eystrasaltsríkjanna.

Cameron hefur kallað eftir þessum breytingum allt frá því fyrir síðustu þingkosningar í Bretlandi. Meginkrafa hans er aukið lýðræði innan Evrópusambandsríkja og aukið jafnræði innan sambandsins, hvort sem ríkin tilheyra evrusvæðinu eða ekki. 

Á blaðamannafundinum í gær sagði blaðamaður BBC hins vegar að ekki lægju fyrir neinar útlistaðar tillögur um það hvernig Cameron vildi sjá Evrópusambandið breytast. Og spurði hvernig almenningur gæti, í því ljósi, trúað að einhver árangur myndi nást.

„Við höfum þegar birt það sem við viljum ná fram í stefnuyfirlýsingu okkar áður en við vorum kosin. Við áttum góðar samræður um þetta í gærkvöldi ásamt öðrum málum, eins og varðandi Sýrland, flóttamannamál og Úkraínu. En við ræddum líka samningaviðræður Breta við Evrópusambandið,“ sagði Cameron og vísaði þar til samtals síns við aðra forsætisráðherra á ráðstefnunni.

Cameron sagðist telja að vel gengi að ræða kröfur Breta. „Ég myndi segja að ferlið væri farið af stað,“ sagði Cameron og benti á að leiðtogaráð Evrópusambandsins hefði móttekið erindi sitt og hann myndi aftur rita forseta leiðtogaráðsins bréf í nóvember. Einnig taldi hann að sjónarmið Breta ættu hljómgrunn víða.

„Ég veit að Noregur og Ísland munu til dæmis fylgjast vel með því hvort Evrópusambandið geti sýnt að það sé sveigjanlegt samband sem geti tekið tillit til margra ólíkra hagsmuna, þeirra sem standa innan Evrópusambandsins og þeirra sem eru fyrir utan.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×